Innlent

Ökklabrotið í bakaríinu fer fyrir Hæstarétt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vigdís Grímsdóttir er 64 ára og margverðlaunaður rithöfundur.
Vigdís Grímsdóttir er 64 ára og margverðlaunaður rithöfundur. Vísir/Pjetur
Rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir þarf að bíða í nokkrar vikur þar til ljóst verður hvort Mosfellsbakarí og Hermann Bridde verði dæmdir skaðabótaskyldir vegna slyss sem Vigdís varð fyrir í útibúi bakarísins við Háaleitisbraut árið 2014. Útidyrahurð bakarísins skall harkalega á Vigdísi með þeim afleiðingum að hún ökklabrotnaði illa.

Fyrir héraðsdómi lagði Vigdís fram skýrslu frá verkfræðistofunni EFLU sem komst að þeirri niðurstöðu að hurðarpumpan væri vanstillt þannig að lokunin væri of hröð. Auk þess vantaði hæglokun síðustu sentimetrana. Var það álit skýrsluhöfunda að hurðin væri hættuleg væri ekki gerð bragarbót á.

Vigdís vann málið í héraði en dómari í málinu fór meðal annars í vettvangsverð til að prófa lokunina sjálfur. Var það upplifun hans að hurðin lokaðist í einni, hraðri sveiflu. Hætt væri við því að það gæti gerst miðað við hvernig umbúnaður þessi var úr garði gerður í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut. Því mætti rekja ökklabrot Vigdísar til vanbúnaðar á hurðarpumpunni.

Óskipt bótaskilda Hermanns, eiganda þessa hluta fasteignarinnar, og Mosfellsbakarís var því staðfest. Húsfélagið á Háaleitisbraut 58-60 var hins vegar sýknað af stefnu Vigdísar sem taldi hæðarmun innan og utan bakarísins of mikinn. Var það álit dómsins að væri hurðarpumpan í lagi þá væri engin hætta á að slys yrðu vegna hæðarmismunar og halla á gangstétt.

Málflutningur fer fram í Hæstarétti á miðvikudag. Vinni Vigdís málið getur hún sótt skaðabótamál fyrir héraðsdómi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×