Innlent

Tveir enn í haldi vegna umfangsmikils fíkniefnamáls

Birgir Olgeirsson skrifar
Mennirnir eru í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði.
Mennirnir eru í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Vísir
Tveir eru enn í haldi vegna rannsóknar lögreglunnar á umfangsmiklu fíkniefnamáli. Annar þeirra er Sigurður Kristinsson sem er eiginmaður Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur sem er í ótímabundnu farbanni á Spáni vegna málsins. Sunna liggur þar mikið slösuð á sjúkrahúsi.

Sigurður var handtekinn við heimkomuna frá Málaga í lok janúar og var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. 7. febrúar síðastliðinn var hann úrskurðaður í fjögurra vikna langt gæsluvarðhald vegna málsins. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir mennina tvo sem eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins ekki sæta einangrun.

Alls hafa fjórir menn setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið en tveimur þeirra hefur verið sleppt.

Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir um fjórum vikum. Var þá sagt frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði farið í aðgerðir í húsnæði Skáksambands Íslands en fíkniefnin komu til landsins í stórum skákmunum. Starfsmenn Skáksambandsins eru þó ekki taldir tengjast málinu.

Sigurður var handtekinn á Spáni um miðjan janúar vegna gruns um alvarlegt ofbeldisbrot gagnvart konu sinni. Honum var sleppt úr haldi þar ytra að loknum yfirheyrslum og svo handtekinn við komuna hingað til lands.

Lögreglan hér á landi hefur verið í viðræðum við lögregluyfirvöld á Spáni um að taka yfir rannsókn málsins, eða þeim hluta sem snýr að Íslandi. Margeir Sveinsson segir í samtali við Vísi að þeim viðræðum miði ágætlega en engin niðurstaða sé komin.

Verði það að veruleika er möguleiki á að flytja Sunnu heim til Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×