Innlent

Tekinn á 155 kílómetra hraða við erfiðar aðstæður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan á Suðurlandi hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku.
Lögreglan á Suðurlandi hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku. Vísir/Eyþór
Erlendur ferðamaður frá Hong Kong var gripinn á 155 kílómetra hraða um helgina við Hóla í Hornafirði. Maðurinn var sviptur ökuréttindum á staðnum.

Krap var milli hjólfara á veginum þar sem þetta var og hættan af þessu aksturslagi augljós að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Greiddi maðurinn sektina á staðnum og tók ferðafélagi hans við akstrinum.

30 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Í fimm þeirra urðu slys á fólki en þó ekki alvarleg. Alvarlegasta atvikið reyndist þegar ökumaður sem hugðist aka fram úr annarri bifreið, á Suðurlandsvegi skammt vestan Kúðafljóts þann 13. febrúar síðastliðinn, rak bíl sinn í horn bifreiðarinnar sem hann hugðist aka fram úr og lenti út af vegi og valt.

Sama dag valt bifreið á Suðurlandsvegi við Mókeldu. Ökumaður og farþegi hlutu minniháttar meiðsl af veltunni. Bifreiðin reyndist ótryggð og eins var um 3 aðrar sem fundust í eftirlitsferðum um umdæmið í vikunni. Skráningarnúmer þessara bifreiða voru fjarlægð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×