Handbolti

Hetja FH: „Klárlega með segul í höndunum“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson í leik með FH.
Óðinn Þór Ríkharðsson í leik með FH. Vísir/Anton
„Við náum að spila okkur í yfirtölu og ég er í raun bara heppinn að boltinn hrökkvi til mín eftir frákast,“ segir hetja FH, Óðinn Þór Ríkharðsson, eftir sigurinn í kvöld. Óðinn skoraði sigurflautumark FH í 31-30 sigri liðsins gegn Valsmönnum í stórleik umferðarinnar í Olís-deild karla. 

„Það er klárlega segull í höndunum á mér,“ sagði Óðinn en hann tryggði einmitt FH sigur gegn Haukum eftirminnilega í vetur, og það með flautumarki.

„Þetta var ógeðslega mikilvægur sigur og gott að komast aftur á sigurbraut eftir tvö lélega leiki í röð hjá okkur. Það var því ótrúlega góð tilfinning að fá loksins tvö stig.“

Óðinn segir að heilt yfir hafi FH liðið ekki verið gott í leiknum í kvöld.

„Í raun vorum við samt miklu betri en í síðustu tveimur og það er jákvætt, þar sem við höfum verið slappir upp á síðkastið.“

Hann var ánægður með mætinguna í Kaplakrika í kvöld.

„Það er alltaf  frábær mæting í Krikann og það var mjög gaman að spila þennan leik. Við ætlum núna að komast á beinu brautina fyrir úrslitakeppnina og toppa á réttum tíma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×