Menning

Höfðað sterkt til ímyndunaraflsins

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Dagný innan um myndir Ásgríms af skrautbúnum álfum og ógnvekjandi tröllum.  Fréttablaðið/Stefán
Dagný innan um myndir Ásgríms af skrautbúnum álfum og ógnvekjandi tröllum. Fréttablaðið/Stefán

Hann Ásgrímur skapaði töfraheim með myndunum sínum og það er höfðað sterkt til ímyndunaraflsins í sýningunni Korriró og dillidó,“ segir Dagný Heiðdal, deildarstjóri í Listasafni Íslands, glaðlega þegar hún er spurð hvort hræða eigi líftóruna úr landanum með sýningunni sem opnuð verður þar í dag. Þar breiða 59 þjóðsagnamyndir listmálarans Ásgríms Jónssonar úr sér í stórum sal, auk þess sem ljósmyndum af öðrum er varpað á vegg. „Við bjuggum til aðstöðu, leyfum okkur að kalla það baðstofu, þar er hægt að setjast niður og hlusta á sögur og horfa á myndir í leiðinni,“ lýsir Dagný. „Svo erum við líka með álfakirkju. Þar er hægt að kíkja inn. Við hugsum efnið ekki síst fyrir fjölskyldur og skólahópa, það er gaman að kynna þennan ævintýraheim fyrir börnum.“

Ásgrímur ólst upp við þjóðsögur að sögn Dagnýjar. „Þjóðsögur Jóns Árnasonar komu út í fyrsta skipti um áratug áður en Ásgrímur fæddist þannig að hann hefur eflaust heyrt þær og lesið í æsku. Svo ólst hann upp austur í Flóa þar sem mikið er um holt og kletta sem auðvelt er að tengja huldufólks- og álfabyggðum. Í safninu voru líka sögur af tröllum, draugum og útilegumönnum. Ásgrímur var alveg sérstaklega hrifinn af tröllum.“Nátttröllið á glugganum, nefnist þessi mynd. Titill sýningarinnar er sóttur í söguna um það tröll og stúlkuna sem kvaðst á við það uns sólin kom upp.

Heiti sýningarinnar er sótt í tröllasögu sem Dagný rifjar upp. „Stúlka nokkur bauðst til að vera heima á jólanótt og gæta bæjarins meðan annað heimilisfólk sótti kirkju. En fram að því hafði sá sem heima var ýmist verið dauður eða sturlaður þegar fólk kom heim. Þetta var hugrökk stúlka sem gætti þess að horfa aldrei í augu nátttröllsins sem kom á gluggann, heldur kvaðst á við það þar til sólin kom upp. Það síðasta sem hún sagði við tröllið var: „Stattu og vertu að steini en engum þó að meini, ári minn, kári og korriró,“ og þegar fólkið kom heim var stór steinn í bæjarhlaðinu utan við gluggann.“

Dagný segir kvenhetjur áberandi í mörgum þjóðsögum sem Ásmundur myndskreytir. „Ása, Signý og Helga koma víða fyrir, Helga er sú ráðagóða og kann að bregðast við ófreskjunum sem á vegi þeirra verða,“ nefnir hún sem dæmi. „En kvenpersónur sagnanna eru ekki allar góðar, þar er líka fullt af skessum sem reyna að tæla unga menn til sín. Þær eru jafnvel mannætur. En í sögunum er oft verið að kenna fólki að bregðast við hættum í umhverfinu og leiðbeina því. Til dæmis ganga álfasögurnar margar út á að við eigum að ganga vel um náttúruna. Það er þekkt enn í dag að við hlífum meintum álfabyggðum.“Ásgrímur túlkaði þjóðsögurnar af einlægni og ástríðu, eins og glöggt má sjá hér á myndinni Nátttröllið á glugganum.

Langt er síðan þjóðsagnamyndir Ásgríms hafa verið jafn margar saman á sýningu og nú, að sögn Dagnýjar. „Ásgrímur var starfandi allan fyrri hluta 20. aldar, hélt fyrstu sýninguna árið 1905 og ég held ég fari rétt með þegar ég segi að þjóðsagnateikningar hafi verið með því síðasta sem hann gerði því hann var að vinna að bók þegar hann lést árið 1958, hún var gefin út ári síðar. Þar eru yfir 30 þjóðsögur með blekteikningum, við erum með margar þeirra á sýningunni, en líka vatnslitamyndir og olíumálverk.“

Listasafn Íslands er við Fríkirkjuveg. Sýningin Korriró og dillidó verður opnuð þar í dag, föstudag, klukkan 18.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.