Viðskipti innlent

Bilunin stóð í tuttugu mínútur og svo aftur í fimmtíu mínútur

Atli Ísleifsson skrifar
Friðrik Þór Snorrason segir ekki algengt að svona bilun komi upp.
Friðrik Þór Snorrason segir ekki algengt að svona bilun komi upp. RB/Vísir
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna, segir að bilun hafi orðið í búnaði sem hafi svo haft keðjuverkandi áhrif sem varð til þess að landsmenn gátu ekki notast við greiðslukort eða hraðbanka á tímabili í gær. Hann segir að gripið hafi verið til ráðstafana og að fullur skilningur sé á hvað hafi gerst.

Friðrik Þór segir að bilunin hafi komið upp í tvígang í gær. „Annars vegar klukkan 13 og svo aftur rétt eftir klukkan 17. Fyrra atvikið varði í tuttugu mínútur og það síðara í fimmtíu mínútur.“

Ráða yfirleitt vel við álagið

Hann segir að það hafi verið mánaðarmót og líkt og um öll mánaðarmót þá hafi verið mikið álag á kerfi Reiknistofu bankanna og viðskiptabankanna. „Að öllu jöfnu þá ráðum við vel við það álag, en ofan í þetta álag kom bilun í búnaði sem takmarkaði mjög afkastagetuna við afgreiðslu greiðslna og hafði keðjuverkandi áhrif.“

Friðrik Þór segir að seinna atvikið, það er það sem varð skömmu eftir klukkan 17, hafi komið á mjög kunnuglegum tíma, að vinnudegi loknum og fjölmargir hafi verið staddir í verslunum. Þetta hafi valdið truflunum í heimildargjöf debetkorta, afgreiðslukerfi bankanna og í hraðbönkum. „Þess vegna hafði þetta mjög mikil óþægindi í för með sér og þykir mjög leitt.“

Óalgengt að svona komi upp

Friðrik segir að ekki algengt að svona komi fyrir. „Sem betur fer er það mjög óalgengt. En þetta getur gerst og þá yfirleitt í mun skemmri tíma en varð í gær.“

Í tilkynningu frá RB kemur fram að færslur sem framkvæmdar voru oftar en einu sinni verði leiðréttar af RB í dag. Viðskiptavinir sem ekki geta beðið geti heins vegar leitað til síns viðskiptabanka.


Tengdar fréttir

Bilun í posum og hraðbönkum

Landsmenn urðu margir hverjir varir við bilanir í posum og hraðbönkum á öðrum tímanum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×