Umfjöllun og viðtöl:Snæfell - Stjarnan 83-64 | Snæfell saxaði á Stjörnuna

Arnór Óskarsson skrifar
Kristin McCarthy.
Kristin McCarthy. Vísir/Ernir
Snæfellskonur sýndu mátt sinn í nítján stiga sigri á Stjörnunni 83-64 á heimavelli í Dominos-deild kvenna í dag.

Strax í upphaf leiks varð ljóst í hvað stenfdi. Heimakonur byrjuðu af miklum krafti og virtist hver einasti leikmaður mættur fullur af sjálfstrausti í þetta verkefni.

Snæfell vann sér inn 17 stiga forskoti í fyrsta leikhluta sem Stjarnan átti miklum erfiðleikum með vinna upp. Allar tilraunir til þess að minnka þennan mun voru stöðvaðar af mikilli ákveðni af hálfu Snæfells.

Stjarnan vann annan og þriðja leikfjórðung með eins stigs mun en dugði það ekki til að snúa leiknum. Snæfell hélt ávallt áfram að svara öllum áhlaupum það sem eftir var.

Afhverju vann Snæfell?

Snæfellskonur mættu vel stemmdar til leiks, létu ekkert koma sér úr jafnvægi og stjórnuðu leiknum frá upphafi til enda.

Jafnframt áttu heimakonur auðvelt með að nýta sér mistök mótherjans og skora auðveldar körfur. Snæfell hætti aldrei að keyra að körfunni auk þess að vera ógnandi fyrir utan þriggjastigalínunni.   

Hverjir stóðu upp úr?

Lykilmaður hjá Snæfelli var Kristen McCarthy sem skoraði 28 stig, tók 16 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Auk hennar má nefna Andreu Björt, Berglindi og Rebekku sem voru allar mjög virkar í sóknarleik Snæfells.

Hjá Stjörnunni var Danielle Rodriguez allt í öllu en lítið kom frá samherjunum hennar að þessu sinni.

Tölfræðin sem vakti athygli?

Stjarnan var með aðeins 25% 2ja stiga nýtingu í dag og var oft ótrúlegt að fylgjast með hvernig boltin ætlaði ekki í körfuna. Hjá Snæfelli rataði aftur á móti annar hver bolti í netið en 2ja stiga nýting heimamanna var 49%.

„Framlag liðsinns skóp sigurinn í dag. Við fengum framlag frá öllum leikmönnum alveg sama hvaða leikmaður kom inn á,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, kátur eftir leik.

Ingi Þór var stoltur af liðinu sínu og hvernig það nálgaðist verkefnið en Stjarnan hefur reynst erfiður mótherji á þessu tímabili.

„Ég er líka mjög ánægður með hvernig Kristen nálgaðist leikinn. Hún ætlaði ekki að rembast við að gera þetta ein. Við náðum að opna fullt af hlutum sem voru bara lok, lok og læs í síðasta leik á móti þeim og bara mjög ánægður með hvernig þessi leikur var spilaður af okkar hálfu.“

Ingi stóð ekki á svörum hvað hefði skilað sigrinum.

„Áræðnin. Við vorum að fara eftir því sem við vorum að tala um. Það er mjög góð tilfinning þegar það sem maður leggur upp með gengur upp. Frákastaeljan í liðinu, eitthvað sem við höfum ekki séð mikið af í vetur, og frábær varnarleikur

Varðandi áhrif leiksinns á deildinna virtist Ingi Þór vera töluvert bjartsýnari en oft áður varðandi framhaldið.

„Það eru níu leikir eftir og 18 stig í pottinum. Stjarnan er einhverjum þremur sigrum á undan okkur í fjórða sæti. Við erum með okkar markmið og þetta hjálpar okkur mikið í að ná þeim.“

Pétur: Þetta var fyrir neðan allar hellur„Eins og ég sagði fyrir leikinn þá er þetta allt annað Snæfellslið en það sem kom til leiks í Ásgarð í vetur. Það eru fullt af flottum leikmönnum hérna og þær bara yfirspiluðu okkur. Það er ekki hægt að segja annað,“ sagði Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Stjörnunar eftir leikinn í dag.

Pétur Már vildi meina að slakur varnarleikur hafi meðal annars haft úrslitaráhrif á gang leiksins.

„Ef við nennum bara að spila sóknarleik þá endar þetta svona. Við erum að reyna að vera gott varnarlið og ég held að við erum búnar að vera það í allan vetur en þetta var fyrir neðan allar hellur. Orkan í leikmönnunum var mjög lág og viljinn til að vinna var mjög lítill.“

 

Stjarnan hefur spilað vel það sem af er tímabilsins en að sögn þjálfarans þarf þó viðhorf leikmanna að breytast til að sigra fleiri leiki.

„Ég er alltaf að reyna að koma því inn í hausinn á þeim hvað þarf til þess að vera sigursælt lið og greinilegt að það kommst ekki til skila í dag. Við fórum allt of hátt eftir síðasta leik og vorum slegnar niður á jörðina.“

Góður varnarleikur hefur lengi verið talinn besti kostur til að vinna leiki og var Pétur Már alls ekki sáttur við hvernig til tókst í dag.

„Vörnin hjá okkur var eins og gatasigti. Við erum að reyna að pressa boltan en við vorum aggressívar á röngum stöðum. Klaufalegar villur, hjálpavörnin var lítil sem engin. Boltapressan var fín en svo tók við eitthvað allt annað sem við höfum annars að vera að útfæra mjög vel,“ sagði Pétur Már hugsi.

Auk varnarleiksins taldi Pétur Már að andlegi þátturinn hafi skipt einhverju máli í dag.

„Snæfell gekk á lagið og fékk meiri sjálfstraust og þá gerist þetta. Mér fannst þetta vera soldið andlegt svona til að byrja með.“

Að lokum sagði Pétur Már að þessi úrslit hafi bara eina merkingu að hans mati á áframhaldið

„Úrslitin í dag þýða að við töpuðum þessum leik og reynum að vinna næsta leik.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira