Erlent

Trump heimilar birtingu minnisblaðsins umdeilda

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heimilað birtingu á umdeildu minnisblaði Repúblikana sem gagnrýnir alríkislögregluna FBI og dómsmálaráðuneytið harðlega. Hefur minnisblaðið verið sent til þingsins sem hefur birt það opinberlega.

Devin Nunes, formaður njósnamálanefndar bandaríkjaþings, lét taka það saman úr gögnum sem hann krafðist frá FBI og dómsmálaráðuneytinu og varða rannsókn á því hvort að framboð Trump hafi átt samráð við útsendara Rússa.

Lesa má minnisblaðið umdeilda hér.

Í minnisblaðinu er því meðal annars haldið fram að James Comey, þáverandi forstjóri FBI, Andrew McCabe, þáverandi næstráðandi Comey og Rod Rosenstein, núverandi aðstoðardómsmálaráðherra og æðsti yfirmaður Rússarannsóknarinnar svokölluðu hafi heimilað beiðni um að óska eftir hlerunum á vafasömum grundvelli.

Er því haldið fram að FBI og ráðuneytið hafi ekki greint dómara frá því að krafa þeirra um heimild til að njósna um tiltekinn starfsmann framboðs Trump hafi að hluta til verið byggð á gögnum úr afar umdeildri skýrslu sem skrifuð var af breskum fyrrverandi leyniþjónustumanni.

Sjá einnig: Aðgerðum repúblikana líkt við alræmt augnablik Watergate-hneykslisins

Birting minnisblaðsins er afar umdeild en dómsmálaráðuneytið, FBI og demókratar lögðust harðlega gegn því að það yrði birt. Sagði FBI meðal annars að efnislegar staðreyndir sem hefðu mikil áhrif á sannleiksgildi fullyrðinga í minnisblaðinu hafi þar verið skildar eftir út undan.

Gaf Trump til kynna á Twitter í dag að minnisblaðið sýndi fram á að æðstu embættismenn dómsmálaráðuneytisins og FBI hafi spillt hinu „heilaga rannsóknarferli“ með því að hygla demókrötum á kostnað repúblikana.

Óvíst er hvaða áhrif birting minnisblaðsins mun hafa en Washington Post greinir einnig frá því að að embættismenn innan löggæslustofnanna í Bandaríkjunum óttist að Trump muni nota minnisblaðið sem ástæðu til þess að reka Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna og æðsta yfirmann Robert Mueller, sérstaks rannsakanda í Rússarannsókninni.

Talið er líklegt að Trump vonist til þess að með birtingu minnisblaðsins muni fjara undan rannsókn dómsmálaráðuneytisins á tengslum framboðs Trump við Rússa, sem verið hefur honum þyrnir í augum að undanförnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×