Menning

Ljósin í takt við ljóðin

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hekla Dögg hefur lag á að laða listamenn til liðs við sig.
Hekla Dögg hefur lag á að laða listamenn til liðs við sig. Fréttablaðið/Valli

Listakonan Hekla Dögg Jónsdóttir er þekkt fyrir síbreytileg og marglaga verk og ólíkar aðferðir við að fá aðra til að taka þátt í þeim. Nú opnar hún sýninguna Evolvement klukkan 18 í dag í Kling & Bang í Marshallhúsinu, Grandagarði 20. Samhliða kemur út vegleg bók með yfirliti um feril hennar.

Hekla Dögg, á hvað leggur þú áherslu í þessari sýningu?
„Ég er svolítið að einblína á sköpunarþáttinn og nú kalla ég til samstarfs skáld og aðra listamenn. Skáldin til að semja af og til ljóð fyrir ljósa- og hljóðskúlptúr sem heitir 2018 og er eins og fréttaveita. Þeir sem hlusta upplifa líðandi stund í gegnum orð skáldsins.“

Skúlptúrinn er með grænum ljósum sem blikka í takt við hrynjanda ljóðanna, að sögn Heklu Daggar. „Þegar fólk hefur dvalið við skúlptúrinn dálitla stund þá sér það bleikt fyrst eftir að það labbar í burtu. Alltaf þegar maður hlustar á ljóð verður maður fyrir hughrifum. Þarna verða áhrifin líka sjónræn.“Hekla Dögg undir pappírsagnaregninu sem gengið er í gegnum að uppsprettu sköpunarinnar. Mynd/Lilja Birgisdóttir

Þarf ekki fólk að sitja lengur og lengur við skúlptúrinn eftir því sem á sýninguna líður ef alltaf bætast ljóð í skúlptúrinn?
„Ég mundi mæla með því að fólk kæmi oftar en einu sinni, því sýningin breytist alltaf,“ svarar Hekla Dögg og færir sig svo skref til baka. „Í anddyrinu er vatnslitaverk sem ég vann með marbling-tækni sem var oft notuð til að prenta á bókarkápur. Þá eru litirnir fljótandi í vatni og pappírsörk dýft ofan í til að fanga þá. Ég gerði mismunandi mynstur á eins stór blöð og ég gat. Þau eru það fyrsta sem fólk sér þegar það kemur, eins og kápa utan um sýninguna fyrir innan. Ljósmyndarar geta notað þessar arkir sem bakgrunn fyrir eitthvað sem þeir vilja mynda.“

Á leið inn úr anddyrinu lenda gestir undir glitrandi pappírsögnum sem hrynja á þá úr loftinu. Hvað táknar sá gjörningur?
„Þá er fólk að ganga inn að uppsprettu sköpunarinnar því þar tekur ljósa- og ljóðaskúlptúrinn við. Svo er haldið áfram inn í næsta rými. Þar er hvít súla sem snýst löturhægt í 360 gráður á þremur mínútum. Á henni er myndavél og á sýningartímanum munu listamenn gera þriggja mínútna vídeóverk þar sem þeir virkja allt rýmið á einhvern hátt, það er áskorun, en listamenn eru alltaf tilbúnir í áskoranir. Ég byrja á þremur verkum sem verða tilbúin á opnuninni. Þau verða sýnd í einu rýminu enn. Þar geta gestir sest og notið þeirra.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.