Erlent

Sagði 150 króna launahækkun á viku sýna fram á ágæti skattalaganna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Paul Ryan er forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Paul Ryan er forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Vísir/AFP
Paul Ryan, repúblikani og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur verið gagnrýndur fyrir tíst sem hann birti á Twitter-síðu sinni í gær. Í tístinu, sem var eytt skömmu eftir birtingu, reyndi Ryan að sýna fram á ágæti umdeildra skattalaga Repúblikanaflokksins með því að greina sérstaklega frá 150 króna launahækkun ritara í Pennsylvaníu-ríki, sem mörgum þótti hlægilega lítil.

Skattafrumvarpið umdeilda varð að lögum í desember síðastliðnum en gagnrýnendur hafa sagt lögin koma sér vel fyrir ríka Bandaríkjamenn á kostnað þeirra efnaminni. Lögin eru talin munu kosta 1.500 milljarða dollara á næstu árum og framan af bentu skoðanakannanir til þess að þau væru almennt óvinsæl meðal þjóðarinnar.

Samkvæmt frétt Washington Post virðast Bandaríkjamenn þó hliðhollari lögunum nú en áður en um helmingur svarenda var jákvæður í garð þeirra í nýrri könnun.

Dugar fyrir Costco-aðildinni í eitt ár

Repúblikanar með Paul Ryan í fararbroddi hafa keppst við að sýna fram á ágæti laganna og hafa t.d. fullyrt að meiriháttar skattalækkanir á fyrirtæki og tímabundnar skattalækkanir á einstaklinga muni borga fyrir sig sjálfar. Þær muni ýta undir hagvöxt og fjölga störfum í Bandaríkjunum.

Máli sínu til enn frekari stuðnings birti Ryan tíst á Twitter-reikningi sínum í gær. Í tístinu, sem var eytt skömmu síðar, deildi hann tengli á frétt AP-fréttaveitunnar í hverri rætt var við Bandaríkjamenn um áhrif skattalaganna á fjárhag þeirra.

Í fréttinni mátti lesa fjölda frásagna sem vörpuðu jákvæðu ljósi á lögin. Það vakti því furðu Twitter-notenda að Ryan skyldi sérstaklega taka fyrir frásögn Juliu Ketchum, ritara frá Pennsylvaníu-ríki, sem hafði hagnast, að því er mörgum fannst, hlægilega lítið á skattalækunum Repúblikana.

Skjáskot af tísti Ryans.Vísir/Skjáskot
„Ritari við opinberan menntaskóla í Lancaster, Pennsylvaníu, sagði það óvænta ánægju að kaup hennar hækkaði um 1,5 dollara á viku ... hún sagði það myndu duga fyrir Costco-aðildinni í ár, og meira til,“ skrifaði Ryan.

Launahækkun á ári lægri en tímakaup Ryans

1,5 dollari er um 150 íslenskar krónur og því er ljóst að launahækkun konunnar er ekki ýkja há. Tíst Ryans þótti leggja áherslu á það sem gagnrýnendur laganna hafi lengi haldið fram, þ.e. að þau hygli þeim efnameiri á kostnað þeirra snauðari. Þannig eru skattalækkanir stórfyrirtækja varanlegar en lækkanir einstaklinga renna út á næsta áratuginum.

Þá benti blaðamaður Washington Post á að launahækkun Ketchum á ársgrundvelli, samanlagt um 7800 íslenskar krónur, sé lægri en upphæðin sem Ryan sjálfur þénar á tímann, eða tæpar 11 þúsund krónur. Ryan þykir því sýna af sér töluvert skilningsleysi á högum hins almenna Bandaríkjamanns með tísti sínu.

Hér að neðan má svo sjá nokkur tíst Twitter-notenda, þ.á.m. fulltrúardeildarþingmannsins Joe Kennedy, sem bæði gagnrýndu Ryan og hæddust óspart að honum.


Tengdar fréttir

Fátækum fórnað á altari hinna ríku

Repúblikanar ætla sér að skera niður í aðstoð við aldraða og fátæka til að laga fjárlagahalla ríkisins sem mun aukast verulega með nýju skattafrumvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×