Erlent

Næsta lota í Brexit-viðræðunum að hefjast

Þorbjörn Þórðarson skrifar
David Davis og Michel Barnier.
David Davis og Michel Barnier. Vísir/afp
Embættismenn á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Bretlands munu alla næstu viku funda í Brussel og Lundúnum um úrsögn Bretlands úr sambandinu.

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB vegna Brexit, mun funda með David Davis, sérstökum ráðherra málaflokksins í bresku ríkisstjórninni, í Lundúnum á morgun í fyrsta sinn síðan leiðtogaráð ESB gaf Barnier leiðbeiningar um aðlögun Bretlands eftir Brexit til að auðvelda úrsögn úr sambandinu. Þá munu embættismenn fjalla um tæknileg atriði á fundum í Brussel frá þriðjudegi til fimmtudags.

Eftir bráðabirgðasamkomulag í desember um helstu atriði uppgjörs vegna Brexit samþykktu leiðtogar aðildarríkja ESB að hefja viðræður um aðlögun og framtíðarsamband Bretlands og sambandsins eftir úrsögn.

Aukinn hraði í viðræðum

Á fréttavef Reuters kemur fram að embættismenn Evrópusambandsins búist við auknum hraða í viðræðunum sem eru framundan í vikunni og er stefnt að því að samkomulag liggi fyrir fyrir ríkjaráðstefnu Brussel hinn 22. til 23. mars næstkomandi.

Þótt aðlögunarsamningur hafi ekki lagalegt gildi fyrr en hann hefur verið fullgiltur eins og sáttmáli þá vonast leiðtogar aðildarríkjanna eftir því að drög að samningi um aðlögun rói væntingar fjárfesta og eyði óvissu um framtíðarsamband Bretlands og Evrópusambandsins.

Á meðal þess sem þarf að ná samkomulagi um er hvaða dómstóll hefur lögsögu gagnvart ágreiningsefnum sem kunna að rísa um túlkun úrsagnarsamningsins og óleyst álitaefni sem snúa að landamærum Írlands og Norður-Írlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×