Innlent

Múrverktaki lagði Tollstjóra í deilu um Sprinter

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin sýnir eldri bræður umrædds Sprinter.
Myndin sýnir eldri bræður umrædds Sprinter.
Múrverktaki þarf að greiða þrettán prósent í vörugjöld af Benz Sprinter bifreið sem hann flutti til landsins. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar. Áður hafði Tollstjóri álitið að leggja bæri 65 prósenta vörugjald á bifreiðina.

Umrædd bifreið var búin sex sætum fyrir farþega auk eins fyrir bílstjóra. Fyrir aftan sætin er að finna rúmgott rými, sambyggt stýrishúsinu, hugsað til að flytja hina ýmsu muni. Vöruflutningarýmið er 170 sentimetrar að lengd en farþegarýmið 230 sentimetrar.

Að mati Tollstjóra var bifreiðin fyrst og fremst hugsuð fyrir fólksflutninga. Því bæri að fella hana í flokk 8703 sem ber 65 prósenta vörugjöld. Þessu vildi verktakinn ekki una enda taldi hann að hún væri aðallega til þess að flytja varning og verkfæri. Því væri bíllinn vöruflutningabifreið sem ætti heima í flokki 8704.

Yfirskattanefnd féllst á það mat Tollstjóra að bifreiðin ætti að falla undir vörulið 8703. Hins vegar var það mat nefndarinnar að það hefði ekki úrslitaáhrif í málinu.

Nefndin rakti hvernig ósamræmi væri í flokkun tollskrár og laga um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Var það niðurstaða hennar að lokum að bifreiðin væri ekki ökutæki til vöruflutninga samkvæmt áðurnefndum vörulið heldur „sendibifreið aðallega ætluð til vöruflutninga undir fimm tonn að leyfilegri heildarþyngd, með sambyggt stýrishús og flutningsrými og án farþegasæta í farmrými“. Því heyrði hún undir undanþáguákvæði laganna og greiða skyldi þrettán prósenta toll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×