Sport

Nassar misnotaði 40 stelpur eftir að FBI fékk að vita af ásökunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mörg fórnarlamba Larry Nassar voru í bandaríska fimleikasambandinu.
Mörg fórnarlamba Larry Nassar voru í bandaríska fimleikasambandinu. Vísir/Getty
New York Times birti um helgina ítarlega grein þar sem farið var yfir mál kynferðisbrotamannsins og læknisins Larry Nassar. Það kom ýmislegt í ljós þegar blaðamenn New York Times settu allar upplýsingar sínar um málið á tímalínu.

Nassar hefur nú þegar verið dæmdur til 40 til 175 ára fangelsisvistar fyrir samanlagt tíu mál en það er ljóst að þau eru miklu fleiri enda eru fórnarlömb hans vel á þriðja hundrað.

Larry Nassar komst ekki aðeins upp með kynferðisbrot sín í áratugi heldur einnig í meira en ár eftir að FBI, bandaríska alríkislögreglan, fékk ásakanir á hendur honum inn á sitt borð.

Samkvæmt grein New York Times fékk FBI fyrst að vita af áskökunum í júlí 2015 en það tók starfsmenn alríkislögreglunnar næstum því ár að ræða við tvö af fórnarlömbunum.







Larry Nassar hélt áfram að misnota stúlkur á meðan eða allt þar til að Indianapolis Star sagði frá þessari hryllilegu hlið hans í september 2016.

Blaðamenn New York Times telja að Nassar hafi misnotað að minnsta kosti fjörtíu stelpur eftir að FBI fékk að vita af ásökunum.

Það voru því ekki aðeins starfsfélagar Nassar í ríkisháskólanum í Michigan, yfirmenn hans í bandaríska fimleikalandsliðinu eða starfsfólk læknamiðstöðvar hans sem hjálpuðu honum að níðast í áratugi á saklausum ungum stúlkum.

Svo virðist vera að bandaríska alríkislögreglan hafi einnig horft í aðra átt á meðan Nassar hélt áfram iðju sinni eins og ekkert hefði skeð.

Hér blandast líka inn í hvernig æðstu menn bandaríska fimleiksambandsins reyndu að fela ásakanirnar.

Í greininni segja meðal annars foreldrar fórnarlamba Nassar frá því hvernig þeim var skipað af yfirmanni bandaríska fimleikasambandsins að segja ekki frá neinu. Á samt tíma fullvissuðu menn þar á bæ foreldrana um það að þeir myndu sjá um að málið færi rétta leið og til lögreglunnar.

Þau fórnarlömb sem og önnur þurftu hins vegar að bíða í mörg ár eftir að Larry Nassar var stoppaður og á meðan bættist fjöldi fórnarlamba í hópinn.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×