Erlent

Zuma á útleið?

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hinn umdeildi Jacob Zuma.
Hinn umdeildi Jacob Zuma. Vísir/afp
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, er nú undir sívaxandi þrýstingi um að segja af sér en viðræður um málið fóru fram í gær með háttsettum meðlimum Afríska þjóðarráðssins, flokki Zuma.

Hann er sakaður um spillingu af margvíslegu tagi og í desember missti hann sæti sitt sem leiðtogi þjóðarráðsins til Cyril Ramaphosa. Ramaphosa er sagður vera að reyna að koma Zuma frá með friðsömum hætti svo ekki komi til átaka innan þjóðarráðsins fyrir komandi forsetakosningar á næsta ári. Óttast er að deilurnar kunni að kljúfa flokkinn og reyna fulltrúar beggja fylkinga hvað þeir geta að varna því að svo fari.

Slíkur klofningur kæmi á versta tíma fyrir Þjóðarráðið enda verður kosið til suður-afríska þingsins á næsta ári.

Framámenn í flokknum eru sagðir á vef breska ríkisútvarpsins vera að undirbúa brotthvarf Zuma úr stjórnmálum. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á að hann segi af sér eða að þingið víki honum úr embætti.

Þeir vildu í það minnsta lítið tjá sig um málið þegar þeir mættu einn af öðrum að heimili Zuma í höfuðborginni Pretoríu í gær. Þar sátu þeir á rökstólum klukkustundum saman en niðurstaða fundarins er enn á huldu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×