Innlent

Þyrlan lenti á grasflöt við Eiðsgranda vegna veðurs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekki reyndist unnt að lenda á Reykjavíkurflugvelli.
Ekki reyndist unnt að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Vísir/Hanna
Flugmenn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, neyddust til þess að lenda þyrlunni á grasflöt við Eiðsgranda vegna veðurs. Dimmur éljabakki gerði þeim ókleift að lenda á Reykjavíkurflugvelli.

Þyrlan var kölluð út skömmu eftir hádegi eftir að bíll með fimm manns um borð fór niður um klaka í Fiská fyrir ofan Vatnsdal á Suðurlandi. Beiðni um aðstoð þyrlunnar var hins vegar afturkölluð en fólkið að komast af sjálfsdáðum út úr bílnum og var bjargað þaðan.

Hugðust flugmennirnir því snúa aftur við og lenda á Reykjavíkurflugvelli en þá hafði skyggni við flugvöllinn spillst svo mikið vegna dimmra élja að ekki reyndist unnt að lenda þar.

Þyrlan fikraði sig meðfram strandlengjunni en þegar skyggnið hélt áfram að versna ákvað áhöfnin að lenda þyrlunni á grasflöt við Eiðsgranda í vesturbæ Reykjavíkur. Lögreglu var gert viðvart vegna lendingarinnar, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Uppfært

Þyrlunni var flogið frá Eiðsgranda klukkan 14:24 þegar skyggnið skánaði. Mynd frá brottför má sjá hér að neðan.

Þungt er yfir í borginni í dag.Vísir/Jóhann K.
Þyrlan yfirgaf Eiðsgranda um klukkan 14:20.Vísir/Hanna

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×