Lífið

Stólpagrín gert að „dömu flögum“ Doritos

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hugmyndir PepsiCo um snakk sérstaklega fyrir konur féllu í grýttan jarðveg.
Hugmyndir PepsiCo um snakk sérstaklega fyrir konur féllu í grýttan jarðveg. Vísir/Getty
Það kannast eflaust flestir við þríhyrnda snakkið Doritos. Einhverjum virðist þó finnast snakkið heldur karlmannlegt og nú eru uppi áform um að framleiða Doritos sérstaklega fyrir konur.

Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Freakonomics í síðustu viku, en PepsiCo er móðurfyrirtæki Doritos. Nooyi sagði að konum væri illa við að borða Doritos á almannafæri vegna braksins sem fylgir flögunum.

„Og þær vilja ekki sleikja á sér fingurna og þær vilja ekki hella mylsnunni upp í sig,“ sagði Nooyi.

Svar fyrirtækisins mun vera að þróa kartöfluflögur sem sérstaklega verða markaðssettar fyrir konur. Samkvæmt Nooyi munu þær braka minna, bragðast eins en minna af kryddinu muni festast á fingrunum. Þá munu pokarnir einnig vera minni svo hæglega sé hægt að koma þeim fyrir í handtöskum.

„Konur elska að vera með snarl í töskunni,“ sagði Nooyi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fyrirtæki reynir að höfða til kvenna með því að kvengera vörur á þennan hátt. Til að mynda féllu hugmyndir franska fyrirtækisins Bic um kúlupenna sérstaklega hannaða fyrir konur, ekki í góðan jarðveg fyrir um fimm árum síðan.

Þá hefur mikið verið fjallað um hinn svokallaða bleika skatt, þegar vörur eru markaðssettar fyrir konur eru umtalsvert dýrari en sambærilegar vörur fyrir karla.

Það er því kannski ekki að furða að netverjar hafi séð sér leik á borði þegar fréttir bárust af dömulegum flögum Doritos. Hér fyrir neðan má sjá brot af því besta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×