Erlent

Bannon neitar að bera vitni fyrir þingnefndinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Steve Bannon var aðalráðgjafi Trump fyrstu sjö mánuðina af kjörtímabili forsetans.
Steve Bannon var aðalráðgjafi Trump fyrstu sjö mánuðina af kjörtímabili forsetans. vísir/getty
Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, ætlar ekki að mæta fyrir þingnefnd til að bera vitni um meint tengsl Rússa við framboð Trumps í síðustu kosningum. Þetta herma heimildir breska blaðsins Guardian en Bannon hefur verið stefnt fyrir nefndina og er því skylt að mæta.

Bannon mætti fyrir nefndina þann 16. janúar síðastliðinn en svör hans voru ekki fullnægjandi að mati einhverra nefndarmanna. Nefndin vill því að hann komi aftur og á hann að sitja fyrir svörum í dag að því er Repúblikaninn Mike Conway sagði fréttamönunum í gær.

Samkvæmt heimildum Guardian ætlar Bannon ekki að mæta þar sem hann mun ekki vera sáttur við spurningar nefndarmanna en heimildir Reuters herma að Hvíta húsið hafi ekki veitt Bannon leyfi til að svara neinum spurningum nefndarinnar. Á fundinum þann 16. janúar neitaði Bannon til að mynda að svara spurningum nefndarmanna um störf sín fyrir Trump eftir að hann var kjörinn forseti.

 

Þrátt fyrir að Bannon ætli sér ekki að mæta á fund þingnefndarinnar mun hann vera tilbúinn til að svara spurningum Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda, sem rannsakar meint tengsl og afskipti Rússa í forsetakosningunum 2016.


Tengdar fréttir

Hvíta húsið múlbatt Bannon

Fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump í Hvíta húsinu neitaði að svara spurningum þingmanna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×