Erlent

Telja að FBI og ráðuneytið hafi horn í síðu Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfuðstöðvar FBI í J. Edgar Hoover-byggingunni í Washington-borg. Yfirmenn stofnunarinnar hafa legið undir nær stanslausri gagnrýni Trump frá því að Rússarannsóknin komst á almannavitorð.
Höfuðstöðvar FBI í J. Edgar Hoover-byggingunni í Washington-borg. Yfirmenn stofnunarinnar hafa legið undir nær stanslausri gagnrýni Trump frá því að Rússarannsóknin komst á almannavitorð. Vísir/AFP
Meirihluti repúblikana í Bandaríkjunum telur að alríkislögreglan FBI og dómsmálaráðuneytið reyni að grafa undan Donald Trump forseta. Niðurstöður nýrrar könnunar benda til þess að linnulaus gagnrýni Trump og bandamanna hans á þingi gegn æðstu löggæslustofnunum landsins móti viðhorf repúblikana.

Samkvæmt könnun Reuters-fréttastofunnar og Ipsos sögðust 73% repúblikana vera sammála þeirri staðhæfingu að starfsmenn FBI og dómsmálaráðuneytisins vinni að því að grafa undan lögmæti Trump forseta með rannsóknum sem eigi sér pólitískar rætur.

Trump hefur sjálfur ítrekað fullyrt að Rússarannsóknin sé pólitískar nornaveiðar gegn honum, runnar undan rótum demókrata sem séu tapsárir eftir forsetakosningarnar árið 2016.

Repúblikanar á Bandaríkjaþingi samþykktu að birta opinberlega leynilegt minnisblað í síðustu viku þar sem fullyrt var að yfirmenn FBI og ráðuneytisins hafi gerst sekir um misferli þegar þeir fengu heimild til að hlera fyrrverandi ráðgjafa framboðs Trump. Það gerðu þeir þrátt fyrir mótbárur FBI og ráðuneytisins.

Á móti telja þrír af hverjum fjórum demókrötum í könnuninni að repúblikanar og Hvíta húsið séu að reyna að grafa undan trúverðugleika FBI og dómsmálaráðuneytisins vegna Rússarannsóknarinnar.

Vinnur hvort sem hann verður hreinsaður af sök eða ekki

Viðhorf repúblikana til tveggja æðstu löggæslustofnana Bandaríkjanna þykir saga til næsta bæjar. Flokkurinn hefur lengi verið sjálfskipaður málsvari laga og reglna. Repúblikanar hafa yfirleitt borið mest traust til löggæslustofnana.

Þannig sögðust 84% repúblikana vera jákvæðir í garð FBI í könnun Reuters og Ipsos í janúar árið 2015. Í síðasta mánuði sagðist 91% þeirra hafa mikið eða nokkuð traust í garð löggæslustofnana Bandaríkjanna.

Erroll Southers, sérfræðingur í þjóðaröryggismálum og fyrrverandi FBI-fulltrúi, segir niðurstöður könnunarinnar nú sýna áhrifin sem Trump hefur á viðhorf flokksbræðra sinna í Repúblikanaflokknum. Hann græði aðeins á því að vega að trúverðugleika stofnananna sem stjórna rannsókn á honum.

„Hann getur ekki tapað á þessu. Ef [rannsóknin] hreinsar hann, þá vinnur hann. Ef hann verður það ekki þá útskýrir hann að FBI sé spillt og að þetta séu allt nornaveiðar og hann vinnur,“ segir Southers sem telur að stuðingsmenn forsetans muni tvíeflas hvor sem niðurstaða rannsóknarinnar verður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×