Erlent

Norður-Kórea plati engan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, á góðri stund.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, á góðri stund. Vísir/AFP
Það er einungis mánaða­spurs­mál hvenær Norður-Kórea getur skotið kjarnorkusprengjum á Bandaríkin. Koma þarf í veg fyrir að það verði mögulegt og afvopna þarf ríkið. Þetta sagði Robert Wood, fulltrúi Bandaríkjanna, á fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuvopn í svissnesku borginni Genf í gær.

Norður-Kóreumenn kenndu Bandaríkjamönnum hins vegar um að auka spennuna á Kóreuskaga. Þeir hafi staðsett flugmóðurskip sín nærri skaganum og íhugi nú að ráðast á höfuðborgina Pjongjang.

„Norður-Kórea hefur gefið verulega í í kjarnorkuáætlun sinni og ítrekað hótað notkun kjarnorkuvopna gegn Bandaríkjunum sem og bandamönnum þeirra í þessum heimshluta,“ sagði Wood og bætti við:

„Norðurkóreskir embættismenn fullyrða að þeir muni ekki láta af áformum sínum og afkjarnorkuvopnavæðast. Nú eru líklega einungis mánuðir þar til ríkið getur skotið kjarnorkuvopnum á Bandaríkin.“

Wood gagnrýndi einnig harðlega vinskapinn sem einræðisstjórnin hefur sýnt nágrönnunum í suðri nýverið. Hafa Norður-Kóreumenn til að mynda mætt til viðræðna. Jafnframt mun ríkið senda lið á Vetrarólympíuleikana í Pyeongchang, Suður-Kóreu. „Þetta, sem ég myndi kalla sjarmaherferð, er ekki að plata neinn,“ sagði Wood.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×