Lífið

Heilbrigði lífsstílinn að gera góða hluti

Guðný Hrönn skrifar
Börkur Gunnarsson var ekkert að sulla í kaffi á meðan hann skrifaði nýjustu bók sína.
Börkur Gunnarsson var ekkert að sulla í kaffi á meðan hann skrifaði nýjustu bók sína. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Spurður út í nýjustu bók sína segir Börkur Gunnarsson: „Þetta er þríleikur. Þetta eru þrjár nóvellur í einni, þær heita Hann, Hún og Þeir. Þær tengjast í rauninni ekki neitt nema að efniviðurinn er markmiða­væðing og vinnusemi.“

Að sögn Barkar fjallar bókin um þá vinnudýrkun sem ríkti á Íslandi á þeim tíma sem hann var að alast upp. „Kynslóðin fyrir ofan mig var öll í þessu. Við sem erum aðeins yngri erum heldur betur búin að slaka á þessari miklu vinnusemi og það er örugglega margt jákvætt við það. Þetta var algjört brjálæði. Ég meina, foreldrar mínir fæddust þegar Ísland var næstfátækasta ríki, ef ekki bara fátækasta ríki, í Evrópu. Þannig að vinnusemin var svakalega mikil á þeim tíma. En við erum núna með ríkustu samfélögum í heimi og getum aðeins róað okkur.“

Nýr og metnaðarfullur lífsstíll

Það sem vakti athygli margra sem fengu boðskort á útgáfuhóf Barkar er að í boðskortinu segir Börkur frá því að hann hafi tekið upp nýjan og metnaðarfullan lífsstíl. Það er koffín-, áfengis-, tóbaks-, og sykurlausan lífsstíl.

„Ég tók þennan lífsstíl upp mjög harkalega í janúar í fyrra. Þá hafði ég fengið mér hellings viskí út í kaffið mitt. Ég blandaði það bara með kaffi ef ég blandaði það á annað borð. Svo reykti ég tæpa tvo pakka á dag og var í sælgætisáti og öllu,“ segir hann og hlær. „Svo einn daginn lokaði ég bara á allt. Ég varð þá bara veikur í nokkra daga.“

Börkur segir fyrstu vikuna hafa verið afar erfiða og hann átti erfitt með svefn. „Ég var svefnlaus í svona viku. Og þó svo að maður verði heimskur af drykkju þá verður maður eiginlega enn heimskari af því að sofa ekki. Maður var bara algjört „zombie“ fyrst um sinn.“

Börkur finnur mikinn mun á sér eftir að hann hætti í áfenginu, sykrinum, tóbakinu og koffíninu. „Þegar maður verður heilbrigður þá finnur maður hvað allt gengur vel. Maður stendur sig vel og getur alltaf verið til staðar ef eitthvað kemur upp á. Þetta verður mjög fallegt og flott líf og maður verður hamingjusamur.

En það hættulega er að þessi sjálfs­tortímingartaug er líka heilbrigð sko,“ segir hann og skellir upp úr. „Það kemur alltaf einhver löngun í að eyðileggja allt aftur, þannig að ég er ekki búinn að vera alveg hreinn síðan ég tók upp þennan lífsstíl fyrst. Ég tók smá svona svindlmóment eftir rúma fimm mánuði. Þannig að ég er fjarri því að vera kominn í heilagra manna status sko,“ segir Börkur kíminn.

Spurður út í hvort það sé ekki freistandi að fá sér kaffibolla þegar maður þarf að sitja tímunum saman og skrifa bók svarar Börkur neitandi. „Nei, þetta er miklu betra svona. Ef þú venst þessu, þá er miklu betra að vinna svona vegna þess að þegar maður er í óheilbirgða lífsstílnum þá verður maður svolítið metnaðarlaus. Maður missir áhugann á því að rétta upp hönd og koma einhverju á framfæri. Maður gerir alla hluti betur þegar maður lifir heilbrigðum lífsstíl.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×