Íslenski boltinn

Fyrirliðarnir snúa heim í Grafarvoginn úr FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bergsveinn Ólafsson og Guðmundur Karl Guðmundsson eru komnir heim.
Bergsveinn Ólafsson og Guðmundur Karl Guðmundsson eru komnir heim. vísir/anton brink/vilhelm
Bergsveinn Ólafsson og Guðmundur Karl Guðmundsson gengu í dag aftur í raðir uppeldisfélags síns Fjölni í Pepsi-deild karla í fótbolta úr FH en þeir voru kynntir til leiks á fréttamannafundi Grafarvogsfélagsins í Egilshöll. Guðmundur Karl gerði tveggja ára samning en Bergsveinn skrifaði undir til þriggja ára.

Bergsveinn, sem var fyrirliði Fjölnis áður en hann gekk í raðir FH fyrir tímabilið 2016, á að baki 41 leik fyrir Fjölni í efstu deild. Hann varð meistari með FH á fyrsta ári en átti ekki jafngott tímabil síðasta sumar.

Guðmundur Karl tók við fyrirliðabandinu af Bergsveini fyrir sumarið 2016 og var svo fenginn til FH fyrir síðustu leiktíð. Hann kom við sögu í fimmtán leikjum af 22 og náði aldrei að vinna sér inn fast byrjunarliðssæti.

Guðmundur Karl og Bergsveinn komnir aftur í gult.ail
Hann yfirgefur nú FH eftir eitt tímabil í Hafnarfirði en Guðmundur Karl er fjórði leikjahæsti leikmaður Fjölnis í efstu deild frá upphafi með 73 leiki og átta mörk.

Báðir eru í miklum metum í Grafarvoginum en Guðmundur Karl, sem verður 27 ára gamall í ár, spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2008 og kom inn í byrjunarliðið ári síðar.

Bergsveinn er ári yngri og spilaði sinn fyrsta leik árið 2010. Hann var orðinn fastamaður í byrjunarliðinu ári síðar en báðir voru lykilmenn í því að koma Fjölni upp í Pepsi-deildina með sigri í Inkasso-deildinni 2013.

Fjölnisliðið, sem varð Reykjavíkurmeistari á mánudagskvöldið í fyrsta sinn, var áður búið að fá Almarr Ormarsson frá KA ásamt þeim Arnóri Breka Ásþórssyni frá Aftureldingur og Sigurpáli Melberg Pálssyni frá Fram.

Ólafur Páll Snorrason, sem var ráðinn þjálfari Fjölnis síðasta haust, er búinn að losa fimm erlenda leikmenn frá félaginu; Fredrik Michaelsen, Ivica Dzolan, Linus Olsson, Marcus Solberg og Mees Junior Siers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×