Skoðun

Hvað er málið?

Svana Þorgeirsdóttir og Helga Sigrún Hermannsdóttir skrifar
Hvers vegna erum nemendur á Verkfræði- og náttúruvísindasviði búin að vera með bilaðan prentara í VR-II í tvö ár? Hvers vegna erum við ennþá að flakka milli fjögurra mismunandi bygginga á einum degi? Hvers vegna er Verkfræði- og náttúruvísindasvið ekki í takt við tímann og hefur fyrirlestra á formi myndbanda á Uglunni, þegar upptökubúnaður er nú þegar til staðar í helstu fyrirlestrasölum HÍ? Allt eru þetta mikilvægar vangaveltur nemanda á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Á sama tíma og við veltum þessum vandamálum fyrir okkur þá veltum við í Vöku fyrir okkur lausnum á þessum vandamálum. Þetta eru áþreifanleg markmið sem við þurfum að ná til að hámarka árangur nemenda innan VoN.

Við þurfum breytingar, breytingar sem hægt er að kippa í lag innan veggja Háskóla Íslands innan raunhæfs tímaramma. Nemendur við Háskóla Íslands eyða að meðaltali fjórum árum í átt að gráðunni sinni. Á þeim tíma vilja nemendur að komið sé til móts við þarfir þeirra og að það sé gert samstundis. Eins og við vitum öll er staðreyndin sú að Háskólinn er hægvirkt stjórnvald en það er svo margt sem er hægt að laga án þess að þurfi að ögra eða ógna þessu rótgróna kerfi. Þetta er ekki flókið - látum verkin tala. Í stað þess að lofa einhverju sem ekki er undir okkur komið, er stefna okkar að setja raunhæf og áþreifanleg markmið sem skipta sköpum.

Hvers vegna fáum við ekki aðgang að skólastofum utan skólatíma? Getur í alvörunni einhver svarað þessu? Er einhver raunveruleg ástæða á bakvið það? Háskóli Íslands þarf að veita nemendum sínum aðstöðu til þess að læra, og ýta undir góða og gilda námstækni. Það les enginn óskiljanlegar eðlisfræðiglósur á netinu sem ekki eru á mannamáli. Krafa okkar er að Háskóli Íslands þurfi að veita nemendum sínum lærdómsaðstöðu á hverri stundu, hafa fyrirlestra aðgengilega fyrir alla utan skólatíma og koma til móts við þarfir nemenda sem lifa í nútímasamfélagi.

Stúdentaráð er rödd okkar háskólanema, nýtum okkur hana. Látum í okkur heyra. Knýjum fram breytingar sem eru raunhæfar og verum þrýstivaldið sem okkur er ætlað að vera og sameinum krafta okkar til þess að fara fulla ferð í átt að breytingum til hins betra. Við erum tilbúnar að láta í okkur heyra, er það ekki málið?



Höfundar eru í fyrsta og öðru sæti á lista Vöku á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.




Skoðun

Sjá meira


×