Erlent

Mátti neita lesbíum um brúðartertu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bakarinn var ekki neyddur til að setja kökuskraut sem þetta á topp brúðartertunnar.
Bakarinn var ekki neyddur til að setja kökuskraut sem þetta á topp brúðartertunnar. VÍSIR/GETTY
Bakara í Kaliforníu var heimilt að neita lesbísku pari um brúðartertu vegna trúarsannfæringar sinnar og tjáningarfrelsis ef marka má niðurstöðu dómstóls í ríkinu.

Lögmenn bakarísins héldu því fram fyrir dómi að baksturinn bryti í bága við þau kristilegu gildi sem bakarinn hafði í heiðri. Þá gæti það vart talist í anda hins margrómaða tjáningarfrelsins ef bakarinn væri krafinn um að baka slíka brúðartertu og þannig neyða hann til að tjá gagnstæða trúarsannfæringu.

Dómarinn sem dæmdi í málinu féllst á þessa röksemd og sagði að bakstur félli undir listræna sköpun sem mætti ekki, sökum tjáningarfrelsins, neyða fram eða hamla með nokkrum hætti. Því bryti baksturinn ekki í bága við lagaákvæði um mismunun á grundvelli trúar, kynhneigðar, litarhafts eða annarra aðgreinandi þátta.

„Brúðarterta er ekki bara venjuleg kaka í tilfelli tjáningarfrelsisins. Hún er til marks um listræna sköpun þess sem hana bakar enda er hún alla jafna skrautmunur og miðpunktur athyglinnar í mörgum brúðkaupsveislum,“ segir í úrskurði dómarans David Lampe.

Eigandi bakarísins er hæstánægður með úrskurðinn og þakkar fyrir að þurfa ekki að taka þátt í „hátíðahöldum sem stríða gegn boðskapi frelsara“ síns.

Sambærilegt mál úr Colorado-ríki er nú rekið fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og fór aðalmeðferð þess máls fram í desember. Búast má við fordæmisgefandi úrskurði síðar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×