Skoðun

Vansvefta gleymum við

Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar
Kona verður ólétt og við tekur 9 mánaða meðganga. Barnið fæðist og foreldrar gleðjast. Fjölskyldan nýtur 9 mánaða fæðingarorlofs. Að fæðingarorlofi loknu tekur svo við svarthol óvissu og tekjutaps. Einn daginn fær barnið pláss í dagvistun og svefnvana foreldrar komast á fullt í vinnu. Lífið gengur sinn vanagang og það eina sem minnir á þetta tímabil vonleysis, tekjuleysis og svefnleysis er bölvaður yfirdrátturinn.

Það hafa flestir upplifað eitthvað þessu líkt og það er eiginlega með ólíkindum að þetta sé látið viðgangast í okkar ríka samfélagi sem stærir sig af jöfnuði og kynjajafnrétti. Ég hitti svefnlækni um daginn sem sagði mér að við myndum ekki minningar þegar við erum vansvefta. Kannski er það ein ástæðan, við komumst öll í gegnum þetta og svo fellur þetta bara í gleymskunnar dá svefnleysis.

Í dag byrja nær öll börn í dagvistun hjá dagforeldrum og hentar það flestum litlum börnum vel. Því miður hefur fækkað í stétt dagforeldra og við því þarf að sporna. Það þarf að stórauka niðurgreiðslur til dagforeldra og fjölga þeim sem vinna tveir og tveir saman. Kortlagning á leikvöllum borgarinnar sem nú á sér stað mun skila okkur fleiri gæsluhúsum og betri aðstöðu fyrir dagforeldra. Dagforeldrar eru og eiga að vera partur af dagvistunarkerfinu og mega ekki upplifa sig sem tegund í útrýmingarhættu.

Reykjavík getur verið stolt af sínum leikskólum sem sinna sínu hlutverki sem fyrsta skólastigið af alúð og starfsfólkinu sem þar vinnur faglegt og ótrúlegt starf á hverjum degi. En það þarf að koma börnum fyrr að og tryggja börnum pláss í sínu hverfi. Þetta gerum við með því að fjölga ungbarnadeildum í öllum hverfum og fara í þær umbætur á starfsumhverfi sem nauðsynlegar eru til þess að við getum mannað nýjar stöður.

Við eigum ekki að treysta á að vansvefta foreldrar harki þetta af sér og gleymi. Við eigum einfaldlega að leysa þetta fyrir börnin okkar og samfélagið allt.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×