Viðskipti innlent

Innflutningur átjánfaldaðist vegna Costco

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Gríðarlegt magn berja hefur endað í risavöxnum innkaupakerrum Costco síðan verslunin var opnuð.
Gríðarlegt magn berja hefur endað í risavöxnum innkaupakerrum Costco síðan verslunin var opnuð. Vísir/ernir
Viðskipti Innflutningur á ferskum jarðarberjum frá Bandaríkjunum fór úr rúmum 26 tonnum árið 2016 í rúm 465 tonn á síðasta ári samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Sprenging varð einnig á innflutningi annarra berja milli ára þar sem gríðarlega aukningu má merkja þegar Costco opnaði verslun sína í Kauptúni í maí í fyrra.

Bandarísku Driscoll’s-jarðarberin sem Costco hóf að selja á hagstæðara verði en áður hafði þekkst hér á landi í fyrra hafa verið ein vinsælasta vara verslunarinnar frá opnun. Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Evrópu, lét hafa eftir sér á fjármálaþingi Íslandsbanka í september að sala á jarðarberjum hefði farið fram úr öllum þeirra væntingum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa jarðarberjaöskjurnar verið söluhæsta vara Costco hér á landi, að eldsneyti undanskildu.

Sjá einnig: Íslenskum jarðarberjum hent í tonnavís eftir komu Costco

Frá opnun Costco í maí til ársloka 2017 nam innflutningur á ferskum jarðarberjum tæpum 464 tonnum. Mánuðina þar áður, frá janúar til apríl, nam innflutningurinn 1,6 tonnum. Ljóst er því að koma Costco og innflutningur verslunarinnar á berjum frá Bandaríkjunum útskýrir nær alla þessa aukningu.

Ekki bara jarðaber

Jarðarberin hafa verið seld í 907 gramma öskjum í Costco, en kílóverðið er um 1.200 krónur. Ef við gefum okkur að hvert innflutt kíló í fyrra hafi selst má áætla að Íslendingar hafi keypt jarðarber fyrir nærri 560 milljónir króna, eða rúmlega 513 þúsund öskjur. Innflutt kílómagn í fyrra jafngildir því að hvert mannsbarn á landinu hafi látið tæplega 1,4 kíló af jarðarberjum inn fyrir sínar varir á síðasta ári.

Costco-berjaæði Íslendinga hefur þó ekki einskorðast við jarðarber. Samkvæmt tölum Hagstofunnar um innflutning á kirsuberjum jókst hann úr tæpum 8,4 tonnum árið 2016 í ríflega 54 tonn í fyrra. Þar má sömuleiðis merkja mikla aukningu á innflutningi eftir opnun Costco.

Hindber, brómber, mórber og lóganber eru flokkuð saman í innflutningstölum. Þar jókst innflutningur úr rúmum 2 tonnum árið 2016 í rúm 107 tonn í fyrra.

Hér er aðeins litið til innflutnings frá Bandaríkjunum, þaðan sem Costco flytur inn ber sín, en hafa ber í huga að flutt er inn nokkuð af berjum á ársvísu hér á landi frá löndum á borð við Belgíu, Holland og Spán svo eitthvað sé nefnt. Stærsti markaðurinn er þó frá Bandaríkjunum.

Í desember síðastliðnum ræddi Fréttablaðið við íslenska jarðarberjabændur sem sögðu komu Costco hafa reynst þeim mikið högg. Henda hefði þurft berjum í tonnavís eftir að landinn fór að kaupa þau í hundruðum tonna í Costco.


Tengdar fréttir

Innkoma Costco viðskipti ársins

Koma bandaríska verslunarrisans Costco hingað til lands er viðskipti ársins að mati dómnefndar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Costco er sagt hafa breytt landslaginu í íslenskri verslun og hrist verulega upp í smásölumarkaðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×