Körfubolti

Öll 30 félögin í NBA nú meira en hundrað milljarða virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
Það er gott að eiga NBA-lið í dag. Ný úttekt frá Forbes segir að öll 30 félögin í deildinni séu nú virði eins milljarðs dollara eða meira.

NBA-deildin hefur öðlast meiri vinsældir utan Bandaríkjanna á síðustu árum, ekki síst í Kína og þá hefur deildin gert mjög hagstæða sjónvarpssamninga.





Meðalfélagið í NBA er nú virði 1,65 milljarða dollara eða 168 milljarða íslenskra króna. Þetta er 22 prósent hækkun á aðeins tólf mánuðum.

New York Knicks er verðmætasta félagið metið á 3,6 milljarða dollara en næstu félög eru Los Angeles Lakers (3,3 millharðar dollara) og Golden State Warriors (3,1). Chicago Bulls (2,6) er nú komið niður í fjórða sætið.

New York Knicks hefur náð inn meiri tekjum eftir að félagið tók Madison Square Garden í gegn. Félagið er nú sjötta verðmætasta íþróttafélag heims á eftir fótboltafélögunum Real Madrid, Barcelona og Manchester United, hafnarboltaliðinu New York Yankees og NFL-liðinu Dallas Cowboys.





Cleveland Cavaliers er í 15. sæti listans metið á 1,3 milljarða dollara en félagið tapaði pening á síðasta ári og munar þar mestu um mikinn launakostnað leikmanna.

Philadelphia 76ers hefur hækkað virði sitt mest á milli ára eða um 48 prósent að mati Forbes. Með liðinu spila nú nokkrir af mest spennandi ungu leikmönnum deildarinnar og framtíð félagsins ætti að vera björt.

Neðst á listanum er hinsvegar New Orleans Pelicans sem er metið á nákvæmlega einn milljarð dollara eða 102 milljarða íslenskra króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×