Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 93-87 | Iðnaðarsigur Stjörnunnar gegn Valsliði sem gerði sér lífið leitt á vítalínunni

Bjarni Helgason skrifar
vísir/eyþór
Stjarnan tók á móti Val í 17. umferð Dominos-deildar karla í kvöld en leiknum lauk með sigri heimamanna, 93-87.

 

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og leiddu með 2 stigum eftir fyrsta leikhluta en í 2. leikhluta tók Stjarnan við forystunni.

 

Staðan í hálfleik var 41-38, heimamönnum í vil en Valsmenn gerðu sig líklega til þess að stela sigrinum í 4. leikhluta þegar að þeir minnkuðu muninn niður í eitt stig.

 

Heimamenn settu hins vegar skotin sín niður á lokamínútunum á meðan Valsmenn voru að klikka á sínum og niðurstaðan því sex stiga sigur Stjörnunnar.

 

Afhverju vann Stjarnan?

Heimamenn voru sterkari aðilinn í kvöld, heilt yfir. Valsmenn leiddu eftir 1. leikhluta en þegar að þú ert yfir, meira og minna allan leikinn þá áttu að sigla þessu heim líkt og Stjarnan gerði.

 

Hverjir stóðu uppúr?

Darrel Combs var geggjaður í kvöld. Gæinn skoraði 26 stig þrátt fyrir að spila í rúmlega 18. mínútur, þá var liðfélagi hans, Hlynur Bæringsson frábær í vörn Stjörnunnar og hélt Urald King alveg niðri í fyrri hálfleik. Hjá gestunum voru það Austin Magnus Bracey og Urald King sem drógu vagninn en þeir skoruðu 50 stig saman fyrir Valsliðið.

 

Hvað gekk illa?

Valsmenn hittu úr 55% víta sinna sem er afar dapurt. Ef þeir hefðu nýtt vítin sín betur hefðu þeir unnið leikinn. Þá voru þeir ekki að taka mörg sóknarfráköst í leiknum sem reyndist dýrt á endanum.

 

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer til Akureyrar 11. febrúar næstkomandi þar sem þeir mæta heimamönnum í Þór Akureyri. Valur fær ÍR í  heimsókn þann 12. febrúar en Valsmenn unnu fyrri leikinn sannfærandi í Breiðholtinu.

 

Ágúst Björgvins: Of langt í liðin fyrir ofan okkur

„Það voru fráköstin sem klikkuðu hjá okkur hérna í kvöld," sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Valsmanna í leikslok.

 

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og en svo byrja þeir að hirða fráköstin af okkur og  fá aukið sjálfstraust með því og  koma sér þannig inní leikinn."

 

Ágúst tók leikhlé undir lok þriðja  leikhluta þar sem hann lét sína menn heyra það duglega og það virtist kveikja í hans mönnum sem náðu að minnka muninn niður í eitt stig.

 

„Þetta var galopinn leikur, þangað til það eru einhverjar 30. sekúndur eftir en við náðum bara ekki að stoppa þá.  Við vorum að fá stig fá fleirum en í síðasta leik en það sem veldur mér meiri áhyggjum eru stigin sem við erum að fá á okkur, þau voru allt of mörg hérna í kvöld."

 

„Við höldum haus allan leikinn, þrátt fyrir að lenda tíu stigum undir. Á móti Njarðvík gáfumst við upp of auðveldlega en við hættum aldrei í kvöld og ég er sáttur með það. "

 

Ágúst telur að möguleikar liðsins um að komast í úrslitakeppnina sé úr sögunni.

 

„Stjarnan er núna komin með gott forskot og ég held að það sé of langt í liðin fyrir ofan okkar," sagði Ágúst að lokum.

 

Hrafn Kristjáns: Ég get varla geymt Darrell lengur á bekknum

„Ég nenni ekki að vera pirra mig á einhverjum hlutum sem við gerðum illa í kvöld, við unnum leikinn og það er það eina sem skiptir máli," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar í leikslok.

 

„Við erum alltaf að læra og reyna að verða betri. Við þurfum að halda betri stöðugleika þegar að við erum komnir með forystu, líkt og við gerðum í síðasta leik. Við erum með nýjan leikmenn sem hefur allt aðra eiginleika en sá sem var hérna á undan honum og við erum hægt og rólega að læra inná hann og ég vona bara að ég sjái meiri bætingu hjá mínum mönnum á Akureyri í næsta leik."

 

Gestirnir náðu að minnka forskot Stjörnunnar niður í eitt stig í fjórða leikhluta.

 

„Maður er alltaf stressaður þegar að andstæðingurinn gerir áhlaup. Mér fannst mínir menn vera aðeins þreyttir og  það er ákveðið áhyggjuefni. Við eigum gríðarlega mikilvægan leik gegn Þór Akureyri í næstu umferð og það er leikur sem við verðum hreinlega að vinna."

 

Darrell Combs var magnaður í liði Stjörnunnar í kvöld og dró vagninn í stigaskorun undir lok leiksins.

 

„Darrell gat varla dregið andann í restina, hann er í ágætis formi og planið er að hann taki að sér ákveðið leiðtogahlutverk í liðinu. Ég get allavega ekki geymt hann mikið lengur á bekknum," sagði Hrafn léttur að lokum.

 

Hlynur Bærings:  Tekur á fyrir menn á mínum aldri að kljást við Urald King

„Það er mjög erfitt að spila á móti þessu Valsliði, þeir eru vel þjálfaðir, það er mikill kraftur í þeim, og það er bara mjög erfitt að eiga við þá," sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar í leikslok.

 

Hlynur sá um að dekka Urald King, framherja Vals í leiknum en tókust þeir vel á í leiknum.

 

„Ég var að reyna gera hlutina erfiða fyrir hann. Stundum tókst það og stundum ekki, það er gaman að spila á móti honum og það er mikill kraftur í honum. Það getur alveg tekið á fyrir menn á mínum aldri að spila við menn eins og hann."

 

„Tveir mjög  góðir sigrar hjá okkur í röð, þótt ég sé ekki alveg sáttur við varnarleikinn hjá okkur í kvöld og það er eitthvað sem við verðum að laga ef við förum alla leið í úrslitakeppnina."

 

Darrell Combs var frábær í liði Stjörnunnar og vann leikinn fyrir heimamenn með mikilvægum þriggja stiga körfum.

 

„Þetta er frábær sóknarmaður, hann er bara búinn að ná tveimur æfingum með okkur en þetta er leikmaðurinn sem okkur vantaði, það er klárt mál. Við þurftum mann sem getur búið eitthvað til og búið til meira pláss. Hann setur pressu á vörnina og vonandi heldur hann bara áfram á sömu braut," sagði Hlynur sáttur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira