Viðskipti innlent

Óvæntur eignarhlutur skilaði 1,5 milljón upp í 663 milljóna líkamsræktargjaldþrot

Birgir Olgeirsson skrifar
Sportfitness ehf. reyndist eiga eignarhlut í Iðngörðum ehf. sem ekki hafði komið fram við skiptum á þrotabúinu.
Sportfitness ehf. reyndist eiga eignarhlut í Iðngörðum ehf. sem ekki hafði komið fram við skiptum á þrotabúinu. Vísir/Ernir
Óvæntur eignarhlutur varð þess valdandi að um ein og hálf milljón króna fékkst upp 663 milljóna króna gjaldþrot Sportfitness ehf. Félagið var stofnað af Guðmundi Ágústi Péturssyni í tengslum við útrás íslenskra líkamsræktarfrömuða á danskan markað.

Sportfitness ehf. var upphaflega tekið til gjaldþrotaskipta fyrri part árs 2014. Engar eignir fundust þá í búinu og var skiptum í Sportfitness lokið í nóvember 2014 sem eignalausu búi.

Bjarni S. Ásgeirsson, skiptastjóri Sportfitness ehf., segir í samtali við Vísi að hins vegar fór félagið Iðngarðar ehf. í gegnum einkaskipti, sem eru skipti á búi án íhlutunar yfirvalds, árið 2017 en það félag var óskylt Sportfitness ehf.

Við skipti Iðngarða ehf. kom meðal annars í ljós að þrotabú Sportfitness var hluthafi í Iðngörðum ehf. með nettóeignarhluta upp á 1.667 prósent.

Þessi eignarhlutur hafði ekki komið fram við fyrri skipti þrotabús Sportfitness ehf.

Bjarni segir að lóð sem Iðngarðar ehf. átti var nýlega seld og komu þá fjármunir til hluthafa og meðal annars til þrotabús Sportfitness ehf.

Lögum samkvæmt bar skiptastjóra því að taka upp skiptin og úthluta þeim fjármunum og endanlega ljúka skiptum.

Sem fyrr segir var Sportfitness ehf. í eigu Guðmundar Ágústs Péturssonar en félagið var notað til að halda utan um helmings eignarhlut í Þrek Holding ehf.  Félagið sem átti hinn helminginn var Þrek ehf. í eigu Björns Leifssonar.

Þrek Holding ehf. var notað til að kaupa danska líkamsræktarfélagið Equinox. Útrásin gekk ekki sem skildi og fór félagið Sportfitness ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. 

Guðmundur Ágúst á félagið Sportmenn ehf. sem rekur Reebok fitness-líkamsræktarstöðvarnar. Björn Leifsson er einn af eigendum og framkvæmdastjóri World Class-líkamsræktarstöðvanna.

Fréttin hefur verið uppfærð






Fleiri fréttir

Sjá meira


×