Íslenski boltinn

Tuttugu Bandaríkjamenn reyna að heilla íslenska þjálfara

Anton Ingi Leifsson skrifar

Tuttugu bandarískir knattspyrnumenn eru nú á Íslandi við æfingar, en í kvöld leika þeir við Íslandsmeistara Vals. Þar reyna þeir að heilla íslenska þjálfara, en þeir eru hér að leitast eftir samningi við íslensk knattspyrnulið.

„Ég var heima og mig langaði enn að spila en ég gat hvergi spilað. Ég vann við að gera pítsur á veitingahúsi foreldra minna,” sagði Joe Funicello, foringi hópsins, í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Á þessum tíma var Páll Viðar þjálfari Þórs, en bróðir hans vann í Connecticut, nálægt mínum vinnustað. Hann kom inn til að fá sér pítsu og við fórum að tala um fótbolta.”

Spjall Joe og bróðir Palla Gísla fór út í meira og að endingu spilaði Joe lengi vel með Þór og einnig með BÍ/Bolungarvík sem nú heitir Vestri.

„Ég spurði hvort hann þekkti einhvern í fótboltanum á Íslandi og hann sagði já reyndar. Ég spurði hvort hann gæti sagt þeim frá mér og hann bað mig um myndband.”

„Hann sendi þeim myndbandið, þeir höfðu áhuga og það endaði með því að ég skrifaði undir samning hérna. Eftir fjóra mánuði fór ég svo til IFK Mariehamn, svo þetta var frábært.”

Nokkrir leikmenn hafa komið til Íslands og gert það gott í gegnum fyrirtæki Joe, Soccerplaza.

„Chuck fór til Þórs, Josh Wicks til Þórs, Sean Reynolds í FH, Will Daniels kom og spilar nú með Grindavík. Við vinnum á öllum stigum og stundum finnur maður einhvern mjög góðan eins og Chuck og stundum ekki.”

„Það eru margir leikmenn í Bandaríkjunum og ef maður getur fundið þá og hjálpað þeim með ferilinn þá er það takmarkið.”

En hver er munurinn á íslenskri og bandarískri knattspyrnumenningu?

„Við erum tæknilegir og leggjum mikið á okkur. Við njótum þess að leggja hart að okkur, þannig er menningin. En okkur er aldrei kennt hvernig á að spila leikinn í grasrótinni.”

„Hvernig maður les leikinn, staðsetningar og fleira af því það eru pabbar sem kenna okkur. Módelið þar hefur ekki breyst mikið og allir geta spilað og þjálfað,” sagði Joe að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.