Innlent

Lögregla réð dönskum börnum frá Íslandsför

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nemendahópur frá Ingunnarskóla fór til Danmörku í nóvember. Nemendurnir geta ekki endurgoldið Dönunum móttökurnar.
Nemendahópur frá Ingunnarskóla fór til Danmörku í nóvember. Nemendurnir geta ekki endurgoldið Dönunum móttökurnar. Vísir/Stefán
Danska lögreglan ráðlagði foreldrum grunnskólabarna í bænum Skive að senda þau ekki í ferð sem hafði verið fyrirhuguð til Íslands í apríl. Ástæðan er sú að börnin höfðu fengið skilaboð með hótunum frá íslenskum nemendum á Facebook.

Hópur nemenda í 9. bekk í Ingunnarskóla hefur verið í samskiptum við danskan skóla um verkefni sem lýtur að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, varðandi sjálfbærni, samskipti og annað.

„Nemendahópur frá okkur fór út til Danmerkur í nóvember,“ segir Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjóri Ingunnarskóla. Þar voru bæði íslensku nemendurnir og hinir dönsku fulltrúar ungu kynslóðarinnar á ráðstefnu. Guðlaug tekur fram að íslenski hópurinn hafi staðið sig vel í verkefninu. „Svo var hugmyndin að danskur hópur kæmi til Íslands í apríl. Það er bekkurinn sem íslenski hópurinn átti samskipti við.“

Guðlaug Erla Gunnarsdóttir

Samskiptin „vel yfir strikið“

Eftir ferðina stofnuðu krakkarnir Facebook-síðu sem þeir notuðu til að eiga samskipti. 

„Það er einhverjum hleypt þar inn sem eru ekki í verkefninu. Þeir krakkar fara yfir strikið og eins einhverjir danskir krakkar. Samskiptin urðu leiðinleg og fóru það vel yfir strikið að danska lögreglan mælir ekki með því að hópurinn fari til Íslands,“ segir Guðlaug.

Hún segir að búið sé að vinna með þá pilta sem áttu í þessum samskiptum í samstarfi við foreldra þeirra.

„Við treystum okkar hópi til þess að taka vel á móti Dönunum en það er litið það alvarlega á þetta að þeim er ekki treyst til að koma.“

Guðlaug segir að áfram verði haldið með verkefnið sem endi með sýningu á Barnamenningarhátíð í samstarfi við Myndlistarskólann í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×