Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - FH 30-30 | FH tapaði stigum í Grafarvogi

Einar Sigurvinsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson átti góðan leik í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson átti góðan leik í kvöld. Vísir/Anton
Fjölnir og FH skildu jöfn, 30-30, í 17. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Leikurinn fór fram í Dalhúsi í Grafarvogi.

 

Fjölnir, sem hafði tapað síðust fimm leikjum sínum fyrir leikinn í kvöld, var að mæta efsta liði deildarinnar sem hafði fyrir leikinn, unnið síðustu sex leiki sína í Olís-deildinni. Það var þó ekki að sjá að nokkur gæðamunur væri á liðinum í fyrri hálfleik.

 

Fyrstu 15. mínútur leiksins voru jafnar er FH-ingar þói ívið betri. Þar fór fremstur í flokki Óðinn Þór Ríkharðsson sem var búinn að skora sjö mörk eftir aðeins 13. mínútna leik. Óðinn endaði leikinn með 15 mörk.

 

Á 15. mínútu komast heimamenn í Fjölni yfir í fyrsta sinn í leiknum, 9-8. Í kjölfarið stjórnuðu Fjölnismenn ferðinni og enduðu hálfleikinn með tveggja marka fyrstu, 17-15.

 

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn síðann af krafti. Þeir spiluðu öfluga vörn og áttu FH-ingar í miklum erfiðleikum með að finna leiðir í gegnum hana. Á 41. mínútu komust Fjölnir fimm mörkum yfir, í stöðunni 22-17 og allt stefndi í annan sigur Fjölnis á tímabilinu. 

 

Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum fóru FH-ingar að sýna af hverju þeir eru efsta lið deildarinnar. Á 53. mínútu í stöðunni 28-25 fyrir Fjölni skora gestirnir fimm mörk í röð og komast tveimur mörkum yfir þegar rúmlega ein mínúta er eftir af leiknum.

 

Með markvörslu frá Bjarka Snæ og marki frá Björgvini Páli á síðustu sekúndum leiksins náði Fjölnir að jafna leikinn. Lokastaðan 30-30 í hörkuspennandi leik.

 

Af hverju vann skildu liðin jöfn?

Barátta Fjölnismanna og góður varnarleikur gaf þeim yfirhöndina í leiknum.  Á síðustu tíu mínútum leiksins sýndu FH-ingar hinsvegar af hverju þeir eru efsta lið deildarinnar og spiluðu frábærlega. Bæði lið munu naga sig í handabökin yfir að hafa ekki náð að klára þennan leik.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Óðinn Þór Ríkarharðsson var í heimsklassa í dag með 15 mörk úr 17 skotum. Næst markahæsti maður vallarins var Einar Rafn Eiðsson með 9 mörk. Í Fjölnisliðinu var Kristján Örn Kristjánsson atkvæðamestur með 7 mörk.

 

Hvað gekk illa?

Stærstan hluta leiksins gekk FH-ingum mjög illa að finna leiðir í gegnum vörn Fjölnismanna og ef ekki hefði verið fyrir stórleik Óðins í horninu, hefði útlitið getað orðið töluvert verra. Bæði lið voru einnig að klúðra of mörgum hraðaupphlaupum og dauðafærum.

 

Hvað gerist næst?

Næstu leikir liðanna fara fram eftir nákvæmlega viku, mánudaginn 19. febrúar. Fjölnir mætir í Garðabæinn þar sem Stjarnan tekur á móti þeim.

 

Stórleikur umferðarinnar fer síðan fram í Kaplakrika þar sem FH mæti Val. FH-ingar unnu fyrri leik liðanna nokkuð örugglega og ljóst að Valsmenn eiga harma að hefna.

Halldór Jóhann: Stundum er þetta bara svona

„Ég veit ekki alveg hvort þetta var unnið stig eða tapað. Við áttum kannski ekkert skilið eftir þessar 50 mínútur. Við vorum bara lélegir í dag,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir jafntefli gegn Fjölni í kvöld.

 

„Við fáum á okkur 30 mörk og erum mjög lélegir varnarlega lengi. Við erum einhvernvegin að skapa okkar eigin vandamál og náum engum takti. Fjölnisliðið gerði þetta bara mjög vel.“

 

FH-ingar voru ekki að spila þann handbolta sem áhorfendur Olís-deildarinnar hafa fengið að sjá það sem af er þessu tímabili. Bæði í sókn og vörn. Halldóri fannst sínir menn ekki hafa mætt rétt stemndir í leikinn í kvöld.

„Mér fannst bara fasið á okkur ekki gott. Ég veit ekki hvort við vorum mættir til þess að sækja stig eða tvö. Verja efsta sætið okkar. Það var svolítill krampi í mörgu sem við gerðum í dag. Óðinn er frábær og er að skora helminginn af mörkunum okkar. Við fáum ekki mark úr hinu horninu en við fáum helling af færum. Við tökum ekki frákast í 60 mínútur.“

 

Þrátt fyrir að vera ósáttur með spilamennsku sinna manna vill Halldór meina er Halldór vonsvikin með að hafa ekki náð að fá tvö stig í kvöld.

 

„Þegar við erum komnir tveimur mörkum yfir og ein og hálf mínúta eftir þá eigum við að klára leikinn. Við eigum að hafa það mikla reynslu og ganga í gegnum það mikið saman. Mér finnst að svona gott lið eins og okkar eigi að klára þá stöðu. Sérstaklega í ljósi þess að við lentum fimm mörkum undir.“

 

FH-ingar höfðu unnið síðust 6 leiki sína í Olís-deildinni fram að þessum. Hann vill þó alls ekki meina að það sé nokkuð vanmat í gangi í herbúðum sinna manna.

 

„Við erum búnir að vinna rosalega góða vinnu í vetur og eigum fyllilega skilið að vera í efsta sætinu. Það voru bara nokkrir leikmenn hjá mér sem voru bara ekki að eiga sinn besta dag. Við erum með Arnar, Gísla, Jóhann, Einar Rafn meidda. Stundum er þetta bara svona, það koma vandamál.“

 

„Ég er samt ekki að segja að þó að það vanti leikmenn eigum við ekki að klára Fjölnisliðið, með fullri virðingu fyrir því. En við þurfum bara að kíkja á þetta og reyna að bæta okkur. Við náum ekki fram því besta í dag en hverjum er um að kenna veit ég ekki. Það er mitt sem þjálfara að leita skýringa á því,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

 

Arnar Gunnarsson: Gott að fá stigið

„Mér fannst við hefðum átt að taka bæði stigin miðað við það hvernig þessi leikur var. Við vorum klaufar. Misstum boltann svolítið oft á síðustu tíu mínútunum, þar sem þeir eru að skora hraðaupphlaup og í tómst markið. Við fáum tvær einkennilegar brottvísanir, en úr því sem komið var, var gott að fá stigið,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis í leikslok.

 

Að 17. umferðum loknum í Olís-deildinni hafa FH-ingar unnið 14 leiki á meðan Fjölnismenn hafa unnið einn leik. Leikurinn leit þó aldrei út fyrir að vera á milli tveggja liða á sitthvorum enda töflunnar.

 

„Þetta var vel spilaður leikur. Það var margt gott í Eyjaleiknum líka. Þar vorum við svolítið fáliðaðir. Mér finnst við vera að bæta okkur stöðugt en nú er bara að halda áfram að ná í sigur. Hópurinn er einhuga um að halda sæti sínu í deildinni, það held ég að hafi rekið okkur áfram.“

 

Arnar sér mikil batamerki á leik sinna á manna og er ánægður með framfarir liðsins.

 

„Það er asnalegt að segja það þegar maður er á botninum en mér finnst við alltaf vera að bæta okkur. En það vantar þetta litla. Það kom svolítið af því í dag, en við þurfum aðeins meira næst,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira