Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Ramhat Hashron | Evrópuævintýri Eyjamanna heldur áfram

Einar Kristinn Kárason skrifar
Sigurbergur Sveinsson.
Sigurbergur Sveinsson. Vísir/Stefán
Það var mikil spenna í húsinu þegar lið ÍBV tók á móti ísraelska liðinu Ramhat Hashron í Vestmannaeyjum í dag. Leikurinn í dag var fyrri leikur liðanna í 16-liða úrslitum Áskorandabikars karla.

Leikurinn fór frekar rólega af stað markalega séð en varnir liðanna stóðu sterkar og gáfu fá færi á sér en eftir 10mínútna leik var staðan 2-2. Liðin fóru svo jafnt og þétt að finna netmöskva hvors annars og var mikið jafnræði í leiknum. Liðin skiptust á að skora og þegar hálfleiksbjallan lét í sér heyra var staðan 15-14, Eyjamönnum í vil.

ÍBV byrjuðu síðari hálfleikinn mjög vel og náðu ágætu forskoti en eftir tæplega 10mínútur af síðari hálfleik áttu Eyjamenn 5 mörk á lið Ramhat. Kom þá sveifla í leikinn og Ísraelarnir sóttu í sig veðrið og minnkuðu muninn í 2 mörk. ÍBV vöknuðu eftir þann kafla og þá var engin spurning hvort liðið myndi vinna leikinn. Á síðustu mínútum leiksins bættu Eyjamenn í og endaði leikurinn með 7 marka mun, 32-25

Aron Rafn Eðvaldsson var frábær í dag og var með 17 skot varin og þar af 2 víti. Aron var ekki á því máli að leikurinn í dag hafi verið auðveldur. „Mér fannst þetta ekki auðvelt. Þeir voru helvíti góðir og miklu betri en maður bjóst við. Við vorum búnir að skoða mikið af vídeó af þeim og þeir voru miklu sveigari, hraðari og líkamlega sterkari en við bjuggumst við. En þetta var klassa 7 marka sigur og gott að fara með þetta veganesti inn í næsta leik.”

Eyjamenn voru mun sterkari aðilinn eftir hálfleik. Hvernig kom það til? „Hálfleiksspjallið var bara í rólegheitunum. Menn fengu sér ávexti og slökuðu á. Mér fannst við vera of spenntir og það var svona ástæðan fyrir því að við náum að slaka aðeins á og njóta okkar að spila án pirrings og spennu.

„Maður veit aldrei,” sagði Aron spurður hvort hann væri viss um að þeir kæmust áfram. „Það eru 7 mörk og svo makedónskir dómarar og maður sá bara hvernig Valur fór í fyrra. Ég myndi halda að 7 mörk ættu að duga en maður veit aldrei. Það er bara þannig.”

„Nei, eða þú veist. Fyrri hálfleikur var erfiður,” sagði Theodór Sigurbjörnsson spurður hvort leikurinn hafi verið auðveldari en hann hafi búist við.

„Þeir byrjuðu vel. Við vorum svolítið opnir í vörninni og við þéttum það aðeins í seinni og þá fengum við þessi auðveldur mörk, hraðaupphlaupin og bjuggum til þetta forskot.”

„Við fengum tækifæri til þess að enda þetta með aðeins stærri mun sem hefði verið mjög sterkt þar sem við erum að fara út á örugglega mjög erfiðan útivöll þar sem við getum fengið alltsaman. Dómara, klikkaða áhorfendur, þannig að jú, 7 mörk eru flott.”

„Við ætlum okkur klárlega að fara áfram. Við þurfum samt að eiga miklu betri leik úti ef við ætlum að fara áfram,” sagði Theodór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira