Viðskipti innlent

Hlynur Bæringsson opnar veitingastað í Garðabæ

Birgir Olgeirsson skrifar
Félagarnir þrír sem eru að opna staðinn, Ricardo Melo, Hlynur Bæringsson og Stefán Magnússon.
Félagarnir þrír sem eru að opna staðinn, Ricardo Melo, Hlynur Bæringsson og Stefán Magnússon. Vísir/Hanna
Körfuboltamaðurinn Hlynur Bæringsson hefur undanfarna mánuði verið að bólakafi við að koma nýjum veitingastað í Garðabæ á laggirnar. Staðurinn heitir Nü Asian Fusion og verður eins og nafnið gefur til kynna með sambland af asískum réttum á boðstólum.

„Við verðum ekki með sushi,“ svarar Hlynur þegar hann er spurður hvað verður boðið upp á veitingastaðnum.

„Við verðum hins vegar með salöt, tærar súpur, lax, hnetusteik, Jungle Curry, Malasíuþorsk, Pekingönd og annað í ætt við það,“ segir Hlynur.

Prufukeyrsla á staðnum mun fara fram yfir helgina en stefnt er að opnun hans á Garðatorgi á mánudag eða þriðjudag. Spurður hvort hann muni þjóna til borðs og standa vaktina á barnum segir Hlynur ekki annað koma til greina af sinni hálfu.

„Annars væri ekkert gaman af þessu.“

Eitthvað hlaut að taka við

Líkt og fyrr segir er Hlynur Bæringsson körfuknattleiksmaður og verið á meðal allra bestu leikmanna Íslands í áraraðir. Hann hefur verið leiðtogi íslenska landsliðsins í körfubolta, leiddi lið Snæfells til Íslandsmeistaratitils árið 2010, spilaði með Sundsvall Dragons í sænsku deildinni í 6 ár við góðan orðstír og leikur nú með liði Stjörnunnar í Garðabæ.

Hlynur Bæringsson í leik með Stjörnunni.Vísir/Eyþór
Hann segir að það hafi ekki verið mikið mál fyrir sig að samþætta körfuknattleikinn við undirbúning veitingastaðarins og komi ekki til með að verða vandamál þegar staðurinn verður kominn á fullt í rekstri, enda með gott fólk með sér í þessu verkefni.

Hlynur verður 36 ára á árinu og sér því fyrir endann á ferli hans.

„Það var alveg kominn tími til að kanna nýjar lendur eftir að hafa verið í hlutverki körfuknattleiksmanns síðastliðin 10 – 15 árin og ég held að það verði ágætt. Auðvitað breytist lífið eitthvað með því en það verður bara spennandi. Eitthvað hlaut að taka við,“ segir Hlynur.

Hlynur Bæringsson ætlar að þjóna til borðs á nýja staðnum ásamt því að standa vaktina á barnum. Vísir/Hanna
Mikil reynsla og þekking

Hann segir Stefán Magnússon, eiganda Mathúss Garðabæjar, hafa nálgast sig með hugmynd að veitingastað og að honum hafi strax litist vel á þá hugmynd. Hlynur segist hafa litið í kringum sig og áttað sig á því að hann ætti marga félaga með mikla reynslu og gott orðspor í veitingabransanum. „Það er eitthvað sem maður þarf til að hefja svona rekstur og ákvað ég því að stökkva á þetta tækifæri,“ segir Hlynur.

Yfirkokkur veitingastaðarins verður Ricardo Melo, sem var áður á veitingastöðunum Kol og Vegamótum, og segir Hlynur þá hafa fengið marga flotta þjóna til liðs við sig.

Hann segir að mikið hafi verið lagt upp úr hönnun staðarins og að andrúmsloftið henti vel fyrir þá sem vilja eiga notalega kvöldstund. Einnig verður boðið upp á „take away“-valmöguleika og segir Hlynur að lagt sé áherslu á að réttirnir séu bæði hollir og góðir og getur fólk því borðað þarna með góðri samvisku.

Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij og Hlynur Bæringsson á leið í verkefni með landsliði Íslands í körfubolta.Vísir/Ernir
Ætlar að borga Pavel til baka

Félagar Hlyns til margra ára, landsliðsmennirnir Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij, hófu fyrir tæpum fjórum árum rekstur Kjöts og fisks sem er með tvær verslanir á höfuðborgarsvæðinu, aðra í Bergstaðastræti í Reykjavík en hina á Garðatorgi í Garðabæ.

Jón Arnór og Pavel er leikmenn KR í Domino's-deild karla og því andstæðingar Hlyns í deildinni en hann segir þá hafa gefið honum góð ráð þegar kemur að þessum veitingastað. Þeir hittist reglulega í kaffi og nú snúist umræðan ekki bara um körfubolta í dag heldur einnig mat og uppskriftir.

„Það er bara mjög gaman og svo eru þeir svo stutt frá staðnum að við getum haft vöruskipti hérna á miðri leið. Ég þarf líka að borga Pavel til baka því hann hefur verið svo duglegur að gefa mér að borða í gegnum árin,“ segir Hlynur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×