Lífið

Nína safnar skrautlegum myndum úr íslenskum fasteignaauglýsingum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sumar myndirnar eru einfaldlega óskiljanlegar.
Sumar myndirnar eru einfaldlega óskiljanlegar.
„Það gerðist eiginlega bara alveg óvart, var á sínum tíma að skoða mikið af fasteignum og þessir gullmolar komu svo inn á milli sem ég bara varð að eigna mér á tölvuna, núna pæli ég voða lítið í fasteignum og er eiginlega bara að skoða þær upp á myndirnar,“ segir Nína Harra sem hefur safnað myndum úr fasteignaauglýsingum í nokkur ár. Myndaalbúmið er orðið nokkuð stórt og þegar þessi frétt er skrifuð eru 522 myndir til sýnis.

Nína býr í Gautaborg þar sem hún er í meistaranámi í textíl, en hún er fædd árið 1992.

Hún segir að það hafi ekki beint komið henni á óvart að svona myndir væru að finna í fasteignaauglýsingum hér á landi.

„Maður hefur séð svipuð svona albúm á netinu hér og þar frá hvaðan sem er í heiminum þannig að sjá svona myndir kom svo sem ekki á óvart. Annars er ég mikið að velja myndir sem mér finnst bara persónulega flott rými og myndi vilja búa í, svo eru mörg rými alveg þvílíkt ljót en svo afskaplega vel ljósmynduð.“

Einhver mynd sem er í sérstöku uppáhaldi?

„Frekar erfitt að gera upp á milli þeirra, en þvottahúsið og búrið er í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo er líka „auka herbergið“, svona rými sem var kannski barnaherbergi áður en er orðið að svona geymslu-gesta-tölvu-allt í bland herbergi.“

Nína segir að viðbrögðin við myndaalbúminu hafi verið góð.

„Held að margir tengi á einhverjum persónulegum nótum við þessar myndir, mikill realismi í bland við nostalgíu.“

Neðst í fréttinni má sjá uppáhaldsmyndir Nínu en hún tók saman sex stykki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×