Íslenski boltinn

Óli Kristjáns: Þurfum að lengja keppnistímabilið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Keppnistímabilið í íslenska fótboltanum hófst í kvöld með fyrsta leik Lengjubikarsins.

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, er ekki sáttur við skipulag keppninnar.

A deildin er leikin í fjórum riðlum og líkur riðlakeppninni um miðjan mars. Sigurvegarar riðlanna leika svo til undanúrslita 24. mars og úrslitaleikurinn er á dagskrá 2. apríl. Keppni í Pepsi-deild karla hefst svo 27. apríl.

„Það kemur 6 vikna bil fyrir þau lið sem komast ekki í fjögurra liða úrslit og það bil þurfa félögin að fylla með æfingaleikjum, sem mér finnst koma á röngum tíma,“ sagði Ólafur í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann vill lengja keppnistímabilið hér á landi til að liðin geti verið samkeppnishæf. Íslandsmótið er um 20 vikur á móti tæpum 40 í Danmörku. Félögin ytra eru með fimm vikur í frí fyrir leikmenn en átta hér á Íslandi.

„Hvað erum við að gera allar hinar vikurnar? Við þurfum að nýta þann tíma til keppni. Þetta með Lengjubikarinn svo langt frá Íslandsmóti er ekki skref í rétta átt.“

Félögin fóru fram á það við mótanefnd KSÍ að hafa Lengjubikarinn á þessum tíma þar sem mörg félög fara í æfingaferðir á þeim tíma og sniðganga Lengjubikarinn.

Viðtalið í heildina má sjá í spilaranum með fréttinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.