Erlent

Fjórðungur barna býr í landi þar sem stríð geisar eða aðrar hörmungar

Atli Ísleifsson skrifar
Um 117 milljónir manna sem búa á átaka- og hörmungarsvæðum skortir aðgengi að öruggu vatni.
Um 117 milljónir manna sem búa á átaka- og hörmungarsvæðum skortir aðgengi að öruggu vatni. UNICEF
Um fjórðungur barna í heiminum búa í stríðshrjáðum löndum eða löndum þar sem aðrar hörmungar geisa. Um fimmtíu milljónir barna hafa þurft að leggja á flótta frá heimilum sínum sökum ofbeldis, fátæktar eða náttúruhamfara.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í alþjóðlegri neyðaráætlun UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fyrir árið 2018.

Í tilkynningu frá UNICEF kemur fram að átök sem hafi varað í fleiri ár, líkt og í Lýðveldinu Kongó, Írak, Nígeríu, Suður-Súdan, Sýrlandi og Jemen, haldi áfram að hafa djúpstæð áhrif á börn og ógna lífi þeirra á hverjum degi. Fyrir þau börn sem búi á þessum átakasvæðum sé daglegt líf algjör martröð.

Ekki hægt að bíða eftir stríðslokum

„Vaxandi ofbeldi og átök hafa stóraukið þörfina á mannúðaraðstoð. Neyðaráætlun UNICEF gerir ráð fyrir að ná til 48 milljón barna í 51 landi árið 2018 - barna sem búa við neyð vegna stíðsátaka, afleiðinga náttúruhamfara og annarra hörmunga,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Manuel Fontaine, yfirmanni neyðaráætlunar UNICEF, að ekki sé hægt að láta börn bíða þar til stríðsátökunum ljúki, á meðan átök halda áfram að ógna lífi þeirra og hafa hörmuleg áhrif á framtíð barna og ungmenna. Börn séu hvað viðkvæmust þegar átök eða hamfarir valdi því að grunnþjónusta samfélaga hrynji, svo sem heilbrigðisþjónusta, vatns- og hreinlætisaðstaða.

Um 117 milljónir manna sem búa á átaka- og hörmungarsvæðum skortir aðgengi að öruggu vatni. „Í mörgum löndum þar sem stríð og átök geisa deyja fleiri börn úr sjúkdómum sem orsakast af óhreinu vatni og slæmri hreinlætisaðstöðu en vegna ofbeldis,“ segir Fontaine. Hann bendir jafnframt á að ef alþjóðasamfélagið bregst ekki strax við til að hjálpa þessum börnum, á meðan átökin geisa, þá þurfi ekki að spyrja að leikslokum.

Nánar má lesa um neyðaráætlunina á vef UNICEF á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×