Innlent

Starfsmaður barnaverndar hefur áður verið kærður fyrir kynferðisofbeldi

Erla Björg Gunnarsdóttir og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Maðurinn er í gæsluvarðhaldi fram á föstudag að óbreyttu.
Maðurinn er í gæsluvarðhaldi fram á föstudag að óbreyttu. vísir/gva
Maður á fimmtugsaldri sem hefur starfað með börnum og unglingum um tuttugu ára skeið í gegnum störf sín hjá Reykjavíkurborg var kærður í ágúst síðastliðnum fyrir gróft kynferðisofbeldi gegn pilti og öðrum börnum. Málið var ekki rannsakað fyrr en í þessum mánuði og því starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga þangað til í síðustu viku.

Þetta er þó ekki fyrsta kæran sem maðurinn fær á sig fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum. Árið 2013 fékk hann kæru á sig en málið var fyrnt og látið niður falla. Vinnuveitendur hans hjá Barnavernd Reykjavíkurborgar fengu ekki að vita af kærunni á sínum tíma og ekki fyrr en í síðustu viku, um leið og þeir fengu að vita af kærunni frá því í ágúst.

Sigurður Hólm, forstöðumaður hjá Barnavernd Reykjavíkur
Yfirmaður mannsins á skammtímaheimilinu fyrir unglinga segir málið algjörlega til skammar.

„Ég skil bara ekki hvernig þetta gat gerst. Ég hef ekki fengið almennileg svör við því af hverju Barnavernd Reykjavíkur var ekki látin vita því öllum hefði mátt vera ljóst hvar maðurinn er að vinna og það hlýtur að vera eðlilegt að láta okkur vita af þessum grun," segir Sigurður Hólm, forstöðumaður hjá Barnavernd Reykjavíkur.

„Það er skandall að svona grunur hafi komið upp fyrir mörgum árum síðan og enginn veit af því.“

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir í samtali við fréttastofu ekki hægt að kenna manneklu lögreglunnar um að málið hafi ekki verið rannsakað fyrr. Hún verður í viðtali vegna málsins í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.


Tengdar fréttir

Réttargæslumaður piltsins segir viðbrögð lögreglu fráleit

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að starfsmaður skammtímavistunar fyrir unglinga á vegum barnaverndar Reykjavíkur hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 19. janúar síðastliðinn grunaður um kynferðisbrot gegn ungum pilti og fleiri börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×