Handbolti

Elvar Örn snýr aftur í Valshöllinni annað kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elvar Örn Jónsson er algjört tölfræðiskrímsli.
Elvar Örn Jónsson er algjört tölfræðiskrímsli. vísir/anton brink
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss, snýr aftur út á handboltavöllinn annað kvöld þegar að Selfyssingar heimsækja Val í 15. umferð Olís-deildar karla. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Strákarnir eru að fara aftur af stað eftir langt EM-frí, en fimmtánda umferðin hefst í kvöld með leik Hauka og Stjörnunnar sem er í beinni útsendingu á Sport 2 HD.

Elvar Örn er einn allra besti leikmaður deildarinnar en hann spilaði sjö af fjórtán leikjum Selfyssinga áður en hann þurfti frá að hverfa vegna bakmeiðsla.

Í þessum sjö leikjum skoraði hann 6,7 mörk að meðaltali í leik með 65 prósent skotnýtingu og gaf þrjár stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var engu síðri í varnarleiknum með 3,3 löglegar stöðvanir að meðaltali í leik, eitt varið skot og einn stolinn bolta.

Elvar Örn var á meðal efstu manna á styrkleikalista HB Statz áður en hann meiddist og verður heldur betur styrkur fyrir Selfyssinga að fá hann aftur.

Þrátt fyrir að spila sjö leiki án hans hélt Selfossliðið flugi undir stjórn Patreks Jóhannessonar og er í fjórða sæti með 20 stig, fjórum stigum á eftir toppliði FH.

Um stórleik er að ræða í beinni útsendingu annað kvöld því Valsmenn eru með 21 stig, stigi meira en Selfoss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×