Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Stjarnan 32-26 | Haukar byrja af krafti eftir frí

Anton Ingi Leifsson skrifar
Björgvin fór illa með Stjörnumenn í dauðafærunum í kvöld.
Björgvin fór illa með Stjörnumenn í dauðafærunum í kvöld. vísir/anton
Haukar byrja af krafti eftir EM-fríið, en liðið vann góðan sjö marka sigur á Stjörnunni í kvöld, 33-26. Haukarnir leiddu frá fyrstu mínútu og saxa á forskot liðanna fyrir ofan með sigrinum.

Haukarnir byrjuðu af miklum krafti og Stjörnumönnum gekk illa að finna leið að markinu. Heimamenn komust í 5-1, með sterkum varnarleik og góðri markvörslu Björgvin Páls, en þá rönkuðu gestirnir loks við sér og fóru að spila betur.

Þeir breyttu stöðunni úr 5-1 í 9-8, Sveinbjörn fór að taka nokkra bolta í markinu og sóknarleikurinn fór að ganga betur. Aron Dagur Pálsson dró þar vagninn og náði að skora nokkur góð á mikilvægum tímapunktum þegar sóknin var farin var að lengjast.

Eftir leikhlé Gunnars Magnússonar þegar tæpar tíu mínútur voru eftir snérist leikurinn aftur. Stjörnumenn töpuðu nokkrum sinnum boltanum klaufalega og Haukarnir fundu auðvelda leið í gegnum varnarleik Stjörnunnar sem hafði verið prýðilegur framan af.

Haukarnir skoruðu fimm af síðustu sex mörkum fyrri hálfleiks og leiddu því með fjórum mörkum, 15-11, þegar liðin gengu til búningsherbergja. Það þurfti margt að gerast til þess að liðið myndi missa þennan leik úr höndum sér.

Í síðari hálfleik héldu Haukarnir áfram að spila vel. Gestirnir voru þó aldrei langt undan, en um miðjan síðari hálfleik virtust heimamenn ætla stinga af. Þeir náðu mest sex marka forystu og virtust ætla gera út um leikinn.

Þá vöknuðu Stjörnumenn af blundi sínum í síðari hálfleik, en varnarleikur þeirra var virkilega slakur í síðari hálfleik. Haukarnir náðu trekk í trekk að finna sér auðvelda leið að marki gestana og því náði Stjarnan lítið að saa á forskot heimamanna.

Mest náðu gestirnir að minnka muninn í þrjú mörk, en nær komust þeir ekki. Haukarnir hertu varnarleikinn að nýju, Björgvin fór að verja og heimamenn sigldu góðum og mikilvægum sigri í hús,

Með sigrinum fara Haukar ekki upp um sæti, en þeir eru komnir með nítján stig og eru nú stigi á eftir Selfoss sem er í fjórða sæti. Selfoss á þó leik til góða. Stjarnan er í áttunda sætinu með þrettán stig, með fimm stiga forskot á Fram sem er í níunda sæti, en þeir eiga þó leik til góða.

Afhverju unnu Haukar?

Þeir leiddu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og það segir okkur að þeir áttu sigurinn fullkomnlega skilið. Þeir spiluðu góðan varnarleik í fyrri hálfleik og fengu einungis ellefu mörk á sig. Þar lögðu þeir grunninn að sigrinum. Sóknaleikurinn gekk vel með tilkomu Tjörva á miðjuna á nýjan leik og mun ganga betur eftir því sem Tjörvi nær sér meira og meira á strik, en hann er að snúa aftur eftir meiðsli. Varnarleikurinn og markvarsla skilaði þó þessum sigri, einu sinni sem oftar á Ásvöllum.

Hverjir stóðu upp úr?

Þetta var liðssigur hjá Haukunum. Það voru margir sem voru að leggja í þennan umtalaða púkk. Hákon Daði skoraði átta mörk, en Daníel Þór Ingason, Atli Már Báruson og Tjörvi Þorgeirsson skoruðu allir fjögur mörk eða fleiri. Björgvin varði svo ágætlega í markinu, sér í lagi úr dauðafærum. Varnarleikur liðsins var einnig virkilega öflugur lengst af.

Aron Dagur Pálsson var nánast einn á báti sóknarlega hjá Stjörnunni, en hann dró vagninn með átta mörk. Egill Magnússon átti góða kafla í leiknum og skoraði sex mörk. Aðrir minna.

Hvað gekk illa?

Enn einn leikinn í vetur er vörn og markvarsla Stjörnunnar til trafala. Liðið nær ekki að binda saman varnarleik og markvörslu í 60 mínútur og það er erfitt að vinna á Ásvöllum, hvað þá ef liðið fær á sig 33 mörk. Einar þarf að ná að stoppa í götin ætli liðið sér að halda úrslitakeppnissætinu.

Hvað gerist næst?

Það er þétt spilað þessa daganna eftir frí og það er umferð strax á sunnudag. Haukar fara þá í Safamýrina og mæta heimamönnum í Fram, en á sama tíma fá Stjörnumenn Framara í heimsókn. Mikilvæg stig í boði þar, en Fram reynir að saxa niður forskot Stjörnumanna í baráttunni um úrslitakeppnissæti.

Hákon Daði: Loksins komið hornaspil

„Það er bara geggjað að komast á gólfið aftur í alvöru leik,” sagði Hákon Daði Styrmisson, hornamaður og markaskorari Hauka, eftir leikinn í kvöld.

„Flott að ná sjö marka sigri, en sóknarlega vorum við dálítið og varnarlega var smá langt á milli okkar.”

Haukarnir litu mjög vel út eftir langt frí og ljóst að innkoma Tjörva Þorgeirsonar í leik liðsins mun bæta liðið til muna. Eðlilega enda Tjörvi frábær leikmaður.

„Nú kemur vonandi smá ryðmi í sóknarleikinn og varnarleikinn líka,” en Hákon er himinlifandi með að Tjörvi Þorgeirsson sé kominn aftur.

„Það er bara geggjað. Loksins kemur hornaspil. Ég nýt góðs af því. Hann er kúl inni á vellinum og oft hefðum við misst þessa leiki niður, en núna náum við að sigla þessu heim.”

Haukarnir þurfa að fara komast á skrið ætli þeir sér að komast í heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Hákon tekur undir það, en fór þó beint í klisjurnar.

„Klárlega. Við tökum samt bara einn leik í einu, en við þurfum samt að vinna þessa helvítis leiki,” sagði Hákon Daði að lokum.

Einar: Vörn og markvarsla er basl

„Það er óhætt að segja að þetta hafi verið kaflaskipt. Við vorum slakir í byrjun, en svo fínir og svo slakir og svo koll af kolli,” sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Vísi í leikslok.

„Þetta er áhyggjuefni. Það voru einhverjir góðir kaflar, en einnig voru lélegir kaflar og það segir sjálft.” Enn eina ferðina lenda Garðbæingar í vandræðum með varnarleik og markvörslu og það er hausverkur Einars.

„Ég hefði ef til vill átt að breyta fyrr í 6-0 vörn. Við vorum full götóttir í 3-2-1 vörninni. Mér fannst þegar við breyttum í 6-0 að það kom smá stopp í þetta og svo fjaraði undan því.”

„Þetta er eins og er búið að vera í allan vetur. Vörn og markvarsla verið basl hjá okkur og það er bara þannig. Við förum einnig með ógrynni af dauðafærum.”

„Við erum að opna þá trekk í trekk, en erum ekki að nýta það, eða skjóta illa eða Bjöggi að verja vel. Eftir því hvernig menn líta á það.”

Sóknarleikurinn Stjörnunnar var á löngum köflum fínn og þeir náðu að opna Haukavörnina ágætlega, en gekk illa að koma boltanum framhjá Björgvini í markinu.

„Mér fannst sóknarleikurinn fínn allan leikinn, en við fórum með sjö dauðafæri í fyrri hálfleik og annað eins í þeim síðari. Það er helvíti erfitt að vinna handboltaleik þegar þú ferð með svona mörg færi.”

„Þetta liggur samt fyrst og fremst í varnarleik og markvörslu. Það er eitthvað sem við þurfum að fara laga,” en Stjarnan þarf nauðsynlega á einhverjum sigrum að halda ætli liðið sér í úrslitakeppni.

„Þetta er hörkubarátta. Ég átti von á okkur sterkari, en Haukaliðið er öflugt og massíft. Það er bara áfram gakk og við þurfum núna að fara einbeita okkur að næsta leik,” sagði Einar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira