Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - ÍR 24-28 | Breiðhyltingar unnu botnliðið

Gabríel Sighvatsson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson og félagar í ÍR unnu sterkan sigur.
Sveinn Andri Sveinsson og félagar í ÍR unnu sterkan sigur. vísir/ernir
Olís-deild karla hófst loks aftur eftir vetrarfrí í kvöld og mættust Fjölnir og ÍR í Dalhúsum í Grafarvogi. Það var mikil spenna í fyrri hálfleik þar sem heimamenn byrjuðu betur. Þeir voru yfir fyrsta korterið en þá urðu kaflaskil.

Markmenn Fjölnis höfðu ekkert varið í fyrri hálfleik en Grétar Ari var í stuði í marki gestanna. Sókn ÍR fór að nýta færin sín betur og voru gestirnir yfir í hálfleik 15-13. Varnarleikur Fjölnis var ekki nógu góður í fyrri hálfleik en þeir voru í botnsætinu fyrir leikinn og þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að komast burt frá fallsvæðinu.

Jafnræði var áfram með liðunum í seinni hálfleik en á síðustu 10 mínútunum sýndi ÍR yfirburði sína og kláraði leikinn. Heilt fyrir voru gestirnir sterkari aðilinn og var það í raun ótrúlegt að þeir skyldu ekki vera löngu búnir að klára þennan leik. Þeir fengu aragrúa af færum en hittu bara ekki á markið. Ingvar Kristinn Guðmundsson í marki Fjölnis var aðeins með 7 varin skot og Birkir Snær Jónsson ekkert.

ÍR getur helst þakkað Grétari Ara fyrir stórleik í markinu en hann átti 23 varin skot. Þessi rosalegi munur í markvörslu segir allt sem segja þarf um þennan leik. Aftur á móti geta Fjölnismenn nagað sig í handarbökin að hafa ekki nýtt sénsinn í dag, en þetta var dauðafæri til þess.

Af hverju vann ÍR?

Þeir geta þakkað Grétari Ara Guðjónssyni fyrir að hafa verið í stuði í markinu, án hans hefði Fjölnir unnið leikinn. Gestirnir héldu haus allan leikinn og sýndu góðan karakter, þegar þeir stigu upp og kláruðu leikinn á síðustu 10 mínútunum.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og áður segir átti Grétar Ari stórleik í marki ÍR-inga. Markahæstir í liði Fjölnis voru Björgvin Páll Rúnarsson og Kristján Örn Kristjánsson með 6 mörk. Bergvin Þór Gíslason var markahæstur hjá gestunum, skoraði 9 mörk.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍR var fínn en þeir gátu ekki klárað færin sín. Markmenn Fjölnis vörðu einungis 7 skot en töpuðu samt bara með 4 mörkum. Aftur á móti gekk ekkert í vörninni hjá Fjölni. Það var hvorki vörn nér markvarsla á meðan sóknarleikurinn var virkilega góður en í marki ÍR stóð Grétar Ari vaktina.

Hvað gerist næst?

Fjölnir er enn á botninum með 5 stig og fara næst til Vestmannaeyja og mæta firnasterku liði ÍBV. ÍR er komið upp í 15 stig og getur farið upp í 6. sæti eftir því hvernig leikir morgundagsins fara. Þeir eiga næst heimaleik gegn Valsmönnum.

Sveinn Andri: Heppnir að ná í sigur

Sveinn Andri Sveinsson, leikmaður ÍR var sáttur með sigurinn en fannst þeir hafa getað spilað betri handbolta.

„Ég er sáttur með sigurinn en alls ekki sáttur með leikinn. Þetta var lélegur leikur og við vorum í raun bara heppnir að ná í sigur í lokin.“

Sóknarleikurinn var svo sem ágætur hjá liðinu en þeir náðu ekki að nýta færin sem þeir sköpuðu sér.

„Sóknarleikurinn var svolítið slakur hjá okkur í dag, við erum búnir að spila mjög vel á undirbúningstímabilinu og vorum bara eitthvað dasaðir. Við sóttum ekki af nógum krafti, vorum ekki að spila saman og það gekk ekki mikið upp hjá okkur í dag,“ sagði Sveinn Andri.

Liðsmenn hans náðu þó að rífa sig í gang á síðustu 10 mínútunum og sigldu mikilvægum tveimur stigum í hús.

„Þetta sýndi bara hversu mikilll karakter býr í þessu liði, þegar maður spilar svona lélegan leik á móti Fjölni á útivelli, þá er mjög sterkt að geta rifið sig upp í lokin og tekið þetta,“ sagði Sveinn Andri að lokum.

Bjarni: Lélegur leikur en héldum haus

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR var sammála Sveini og sagði að þeir hefðu alls ekki spilað nógu vel í kvöld.

„Já, ég er mjög ánægður með sigurinn. Við héldum bara haus allan leikinn. Þetta var lélegur leikur af okkar hálfu en við héldum haus og við náum nokkrum góðum stoppum á síðustu 10 sem skapar þennan mun sem skildi liðin að,“

„Sóknarleikurinn var nokkuð góður en við förum með 12-13 dauðafæri og hræðilegir tapaðir boltar. Mér fannst allan leikinn við ekki vera „on.“ Þetta var rosalega erfiður leikur, ég ætla ekki að taka neitt af Fjölni, mér fannst þeir gera hlutina vel en við vorum svolítið langt frá okkar besta.“

Bjarni var ekki viss hvað var að hjá sínum mönnum í kvöld en sagði að þeir hefðu verið að spila á erfiðum útivelli.

„Ég held við höfum bara verið svolítið... ekki ryðgaðir því við höfum spilað mjög góða leiki á undirbúningstímabilinu.“

„Það er bara virkilega erfitt að koma hingað og vinna. Þú hefur öllu að tapa og Fjölnir er með sterkt lið og eru vel skipulagðir. Þú færð ekkert gefins hérna og mér fannst við ekki vera 100 prósent, kannski vorum við bara smá stressaður að spila fyrsta leikinn hérna eftir frí,“ sagði Bjarni að lokum.

Ekki náðist í Fjölnismenn í viðtöl.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira