Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Víkingur 33-16 | Davíð mætti Golíat í Eyjum

Einar Kristinn Kárason skrifar
Kári Kristjánsson.
Kári Kristjánsson. Vísir/Ernir
Það má með sanni segjast að Davíð hafi mætt Golíat í Vestmannaeyjum í kvöld og var það sá stóri sem tók stigin tvö. Alveg frá því að leikurinn var flautaður á sá í hvað stefndi.

Eyjamenn tóku snemma fram úr Víkingum og litu ekki um öxl. Eyjamenn fóru inn í hálfleikinn 7 mörkum yfir og ljóst var að eitthvað stórkostlegt þyrfti að ganga á ef Víkingar ætluðu sér að fá eitthvað úr leiknum. Svo var þó alls ekki heldur settu heimamenn í næsta gír og einfaldlega keyrðu yfir gestina.

Leikurinn endaði með 17 marka mun, 33-16.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamenn mættu grimmir til leiks eftir fínasta jólafrí og sýndu að þeir eru með valinn mann í hverja stöðu og jafnvel rúmlega það. Víkingar áttu fá svör við flæðandi sóknarleik og sterkri vörn ÍBV. Þegar komið var aðeins inn í leikinn var spurningin einungis hver stór markamunurinn yrði þegar flautað yrði af.

Hvað gekk illa?

Víkingum gekk afar illa að skapa sér klár marktækifæri í leiknum þar sem vörn ÍBV stóð sterk ásamt góðri markvörslu.

Hverjir stóðu upp úr?

Sigurbergur Sveinsson átti afbragðsfínan leik fyrir ÍBV í dag ásamt í raun öllu liðinu. Allur hópurinn var nýttur vel í dag og stóðu sig allir vel. Markmenn skiptu á sig hálfleikum og stóðu báðir vaktina með prýði.

Hjá Víkingum var Jón Hjálmarsson öflugastur en Víkingar leituðu til hans þegar þurfti að koma boltanum í átt að marki. Bjarki Garðarsson var einnig ágætur í markinu og fær heiðurverðlaun dagsins einfaldlega fyrir það að standa upp og halda áfram leik eftir að hafa fengið vítakast Sigurbergs beint í andlitið á ógnarhraða.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn spila næst gegn Fjölnismönnum þar sem búast má við hörkuleik en með sigrinum í dag tylltu þeir sér á topp deildarinnar þegar þetta er skrifað. Víkingar eiga afar erfitt verkefni fyrir höndum þegar þeir mæta í Kaplakrika og etja kappi við FH-inga sem eru sem stendur í 2.sæti deildarinnar.

Arnar einbeittur á hliðarlínunnivísir/ernir
Arnar:Bjóst ekki við svona auðveldum leik

„Já, virkilega gott“, sagði Arnar Pétursson þjálfari ÍBV spurður að því hvort hann væri ekki ánægður með að vera kominn af stað aftur. „Þetta er löng vetrarpása sem við fáum og alltaf jafn gott að komast af stað aftur.“

Spurður hvort hann hafi búist við því að munurinn á liðunum yrði svona mikill svaraði Arnar: „Nei, satt best að segja ekki. Víkingarnir voru okkur erfiðir í fyrri umferðinni og það tók okkur langan tíma að slíta þá frá okkur. Við spiluðum bara vel í dag og fengum góða markvörslu með okkur og náðum að keyra svolítið og þess vegan verður þetta kannski svona stór sigur þegar uppi er staðið.“

„Það er hellingur af hlutum sem við getum tekið með okkur (inn í næsta leik) en vitum svo sem kannski að Víkingarnir gáfust snemma upp svo það er kannski ekki alveg að marka þetta. Við fáum töluvert meiri mótspyrnu hér á sunnudaginn þegar við fáum Fjölnismenn sem eru líkamlega sterkir og lemja vel frá sér þannig að það á eftir að reyna svolítið á okkur og sýna hvar við stöndum.“

vísir/eyþór
Gunnar: Eigum að sýna betri frammistöðu

„Við sáum bara aldrei til sólar í þessu og vorum greinilega bara ekkert komnir úr jólafríinu,“ sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari Víkinga eftir stórtap gegn ÍBV. „Sóknarleikurinn afleitur og vörnin í byrjun ekki góð og síðan náðum við bara aldrei neinu fram í sókninni í kjölfarið fórum við að fá á okkur hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru þannig við áttum bara aldrei breik.“

Ljóst var fyrir leik að verkefnið yrði erfitt fyrir Víkinga. „Fyrirfram er ekkert reiknað með að við séum að fara að taka stig hérna en við eigum að geta sýnt samt sem áður mun betri frammistöðu og aðeins meiri neista og baráttu. Við bara gáfum eftir og gáfum þeim þetta svo átakalaust í lokin.“

„Við eigum tvo erfiða leiki hér í byrjun. ÍBV á útivelli og erum svo að fara í Kaplakrikann á sunnudaginn. Við vissum það fyrirfram hvernig það prógram yrði svo við verðum bara að standa í lappirnar og halda áfram,“ sagði Gunnar að lokum.

Sigurbergur SveinssonVísir/Anton
Sigurbergur: Við spiluðum vel. Þeir spiluðu illa

Sigurbergur Sveinsson, leikmaður ÍBV, var að vonum kátur eftir stórsigurinn á Víkingum í Vestmannaeyjum. „Ég er ánægður með hvernig við mættum einbeittir til leiks og kláruðum þetta bara með stæl.“

„Ég veit það ekki,“ sagði hann spurður hvort getumunurinn væri þetta mikill. „Við spiluðum vel. Þeir spiluðu illa. Þetta var bara góður dagur hjá okkur og slæmur hjá þeim held ég.“

„Við erum að mæta bara af fullum krafti inn í leikinn, allan leikinn. Við höfum oft verið að hætta þegar við erum komnir í forustu,“ en svo var ekki upp á teningnum í dag.

Eyjamenn eiga marga heimaleiki það sem eftir lifir móts sem hlýtur að veita þeim smá innspýtingu. „Fullt af leikjum. Sérstaklega núna í febrúar. Við tökum bara einn leik í einu og fögnum því að vera að spila á heimavelli loksins,“ sagði Sigurbergur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira