Erlent

Fjölskylda Toms Petty greinir frá banameini hans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Petty lést í byrjun október síðastliðnum, 66 ára að aldri.
Tom Petty lést í byrjun október síðastliðnum, 66 ára að aldri. Vísir/afp
Tónlistarmaðurinn Tom Petty lést eftir að hafa innbyrt of stóran skammt af verkjalyfjum fyrir slysni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans.

Talið er að Petty hafi verið háður lyfseðilsskyldum verkjalyfjum í nokkurn tíma fyrir andlátið. Þá segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar að Petty hafi „glímt við ýmsa alvarlega kvilla“, þar á meðal mjaðmarbrot, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

„Daginn sem hann lést var honum tjáð að mjöðm hans væri brotin og við höldum að sársaukinn hafi einfaldlega verið óbærilegur og hafi valdið ofneyslu hans á lyfjum.“

Þá vonast fjölskylda Pettys til þess að andlát hans knýi fram frekari umræðu um ofneyslu á sterkum verkjalyfjum á borð við fentanýl, morfín og oxýkódon. Læknar Pettys höfðu meðal annars skrifað upp á fentanýl-plástra fyrir söngvarann vegna þrálatra verkja.

Petty, sem var 66 ára gamall, lést í byrjun október siðastliðnum. Í fyrstu yfirlýsingu um andlátið, sem undirrituð var af umboðsmanni Pettys og fjölskyldu, var banamein hans sagt hjartaáfall.

Ferill Petty spannaði nokkra áratugi, en hann rataði fyrst í sviðsljósið þegar hann kom fram með bandinu The Heartbreakers á sjöunda áratug síðustu aldar. Á meðal þekktustu laga hans eru Free Fallin', I Won't Back Down, Don't do me like that og Learning to fly.






Tengdar fréttir

Þau kvöddu á árinu 2017

Fjölmargir þekktir einstaklingar úti í heimi kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×