Innlent

„Say Iceland“ sigurvegarar Hnakkaþonsins

Þórdís Valsdóttir skrifar
Sigurliðið í Hnakkaþoninu 2018.
Sigurliðið í Hnakkaþoninu 2018. Aðsend mynd
Úrslit Hnakkaþons Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi voru kynnt í gær og bar vörumerkið „Say Iceland“ sigur úr bítum.  Hnakkaþon er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun.

Í samkeppninni reyna nemendur Háskólans í Reykjavík að vinna að lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi og í ár þurftu nemendur að finna leiðir til að auka sölu á sjófrystum ufsa til hótela og veitingahúsakeðja í Bandaríkjunum.

Í vinningstillögunni er lagt til að lögð verði aukin áhersla á íslensk gæði, sjálfbærni og jafnt framboð allt árið um kring í markaðssetningu á ufsa á Bandaríkjamarkaði. Þá er lagt til að nýtt vörumerki „Say Iceland“ verði þróað og að aðstaða til fullvinnslu í Portland verði byggð upp þar sem ufsinn verði marineraður, reyktur eða hjúpaður raspi. 

Nái tillögur sigurligsins fram að ganga mun Brim hf. byggja upp eigið vörumerki undir nafninu „Say Iceland“ og selja fullunninn ufsa á nýja markaði á austurströnd Bandaríkjanna.

Sigurliðið skipa fimm nemendur Háskólans í Reykjavík, þau Tinna Brá Sigurðardóttir, Sóley Sævarsdóttir Meyer, Serge Nengali Kumakamba, Yvonne Homoncik og Julia Robin de Niet.

Liðið hlýtur að launum ferð á sjávarútvegssýninguna í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi. 

Í dómnefnd Hnakkaþons 2018 sátu: Björgólfur Jóhannson forstjóri Icelandair Group, Bylgja Hauksdóttir umboðsaðili North Coast Seafoods Ltd., Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips, Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri tengsla í HR, Karl Már Einarsson útgerðarstjóri Brims og Þorgeir Pálsson aðjúnkt við viðskiptadeild HR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×