Innlent

Rúmlega 80 prósent lóða frá borginni fyrir leiguíbúðir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Félagsstofnun stúdenta er þegar byrjuð að byggja 244 íbúðir við Sæmundargötu í Vatnsmýri.
Félagsstofnun stúdenta er þegar byrjuð að byggja 244 íbúðir við Sæmundargötu í Vatnsmýri. Vísir/Hanna
Á síðasta ári úthlutaði Reykjavíkurborg lóðum fyrir 1.711 íbúðir. Þar af var 1.422 lóðum úthlutað til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en þar eru íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara og lágtekjufólk í meirihluta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Því eru nær 83 prósent lóðaúthlutana séu til slíkra félaga. Í tilkynningunni kemur fram að meirihluti lóðanna sé ekki á hefðbundnum þéttingarreitum í miðborginni. Uppbyggingin muni hins vegar þétta byggð.

Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir ánægjulegt að sjá lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar aukast. „Einkum er ánægjulegt að sjá að stærstu úthlutanirnar fara til félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og munu bjóða fram leiguíbúðir fyrir hópa sem eiga erfitt með að fóta sig á húsnæðismarkaði.“

Hún segir Íbúðalánasjóð ekki hafa lagt mat á hvað vanti margar íbúðir í borginni, en miðað við áætlun sem gefin var út síðasta vor vantaði hátt í 5.000 íbúðir á landsvísu til að jafnvægi næðist á markaði.

Þeir byggingaverktakar sem blaðið ræddi við eru ekki sáttir við stöðuna og segja að það sárvanti lóðir í Reykjavík á almennan markað. „Það er eiginlega ekkert að hafa af lóðum hjá borginni. Þetta fer eiginlega allt í félagslega kerfið. Hinn hlutinn situr eftir,“ segir Gunnar Þorláksson, annar eigenda Byggingafélags Gunnars og Gylfa.

„Til að þessi markaður verði í jafnvægi þarf íbúðir fyrir fólk sem er að fara af stað og vill eiga íbúðir. En þetta er ekki í boði,“ segir Gunnar.

Hann segir BYGG vera að klára Sjálandshverfið í Garðabæ og verið sé að byrja á nýju bryggjuhverfi í Kópavogi. Þá sé verið að byggja í Lundinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×