Erlent

Enn allt í hnút vestanhafs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölmargar ríkisstofnanir, svo sem þjóðgarðar, opna ekki fyrr en þingið hefur fundið lausn á peningamálunum.
Fjölmargar ríkisstofnanir, svo sem þjóðgarðar, opna ekki fyrr en þingið hefur fundið lausn á peningamálunum. Vísir/Getty
Hundruð þúsunda opinberra starfsmanna munu ekki geta mætt til vinnu í Bandaríkjunum í dag þar sem þingmönnum hefur ekki tekist að semja um greiðsluheimildir til áframhaldandi starfsemi þeirra.

Lokunin tók gildi á miðnætti á föstudag og tilraunir manna um helgina til að leysa málið hafa ekki borið árangur. Til stóð að greiða atkvæði í öldungadeildinni seint í gær en atkvæðagreiðslunni var frestað til klukkan fimm að íslenskum tíma í dag. Lítið virðist þokast í deilunni og kenna þingmenn Demókrata og Repúblikana hver öðrum um hvernig málið er komið í hnút.

Demókratar vilja ólmir að endurskoðun á innflytjendamálum verði hluti af yfirstandandi greiðsluheimildarviðræðum á meðan Repúblikanar segja að engin slík endurskoðun geti átt sér stað meðan starfsemi alríkisins liggur niðri.

Sjá einnig: Kenna Demókrötum um lokun alríkisstjórnarinnar

Á sama tíma vilja Repúblikanar fá aukið fjármagn til landamæravörslu, þannig að reisa megi múrinn við Mexíkó, ásamt auknum fjármunum til herdeilda landsins.

Þrátt fyrir að Repúblikanar séu með meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings, 51 sæti af 100, þarf að 60 atkvæði til að samþykkja greiðsluheimildirnar. Því þarf flokkurinn að reiða sig á töluverðan stuðning Demókrata ef þeir vilja binda enda á vinnustöðvunina. Forseti Bandaríkjanna vill að flokksmenn sínir taki málið í sínar hendur og keyri það í gegn, eins og sjá má í tísti hans hér að neðan.

Síðast kom þessi staða upp árið 2013, í stjórnartíð Baracks Obama, þegar lokunin stóð yfir í um 16 daga. Þetta þýðir að margir ríkisstarfsmenn sitja heima, launalaust, uns hnúturinn leysist - og gætu gert það næstu daga.


Tengdar fréttir

Kenna Demókrötum um lokun alríkisstjórnarinnar

Bandarískum alríkisstofnunum hefur verið lokað um óákveðinn tíma þar sem ekki náðist að semja um greiðsluheimild til áframhaldandi starfsemi í öldungadeild Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×