Lífið

Rúrik vill vernda mannorð sitt: Samtölin snérust um kynlíf

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúrik var á línunni á FM957 í morgun.
Rúrik var á línunni á FM957 í morgun. Vísir/andri marínó
„Ég fór að fá helvíti mikið af skilaboðum á Instagram og Facebook fyrir helgi um það að ég hefði verið að tala við þessa aðila á Tinder og Snapchat,“ segir knattspyrnukappinn og landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason en hann sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla í gær þar sem hann segir að brotið hafi verið á friðhelgi einkalífs síns. Falskir reikningar hafi verið stofnaðir á samfélagsmiðlinum Snapchat og stefnumótaforritinu Tinder í hans nafni. Rúrik var í viðtali í morgunþættinum Brennslan á FM957.

„Þessir aðilar voru að velta því fyrir sér hvort ég væri í raun og veru að þessu. Í byrjun þá kippir maður sér ekkert upp við þetta en þegar fólk segir manni að samtalið sé t.d. að snúast um kynlíf og kynlífslýsingar þá svona er þetta orðið svolítið alvarlegt mál og leiðindamál.“

Rúrik segir að mikilvægt hafi verið að bregðast fljótlega við.

„Skilaboðin voru víst mjög mörg og þetta er eitthvað sem ég vill ekki standa fyrir. Ég reyni alltaf að koma vel fram og koma vel fyrir og því er þetta helvíti óheppilegt.“

Rúrik Gíslason fór á dögunum frá þýska liðinu Nürnberg og gekk í raðir Sandhausen.Vísir/Getty
Rúrik hefur nú þegar lagt fram kæru til lögreglunnar.

„Það er nú einu sinni þannig að maður er bara með eitt mannorð og ég veit í raun og veru ekki hvað þessi aðili er búinn að hafa samband við marga á þessum miðlum. Fólk sem ég fékk skilaboð frá, konur og stelpur, voru á öllum aldri og alvarleikinn finnst mér mikill.“

Hann segist hafa heyrt fyrst af málinu á miðvikudaginn í síðustu viku.

„Þetta hefur reyndar gerst áður og þá í Finnlandi. Þá var ég úthúðaður af mörgum finnskum stelpum af því að ég vildi ekki hitta þær og hafði hætt við að hitta þær eftir einhver Tindersamtöl, en það er annað mál. Maður kippir sér kannski ekki upp við það en þegar þetta er á Íslandi. Þetta er lítið land og það þarf ekki mikið út að bregða til að mannorðið fari í þá átt sem maður óskar sér ekki.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Rúrik í heild sinni.   


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×