Íslenski boltinn

Lagt til að lengja kjörtímabil formanns KSÍ en takmarka valdatímann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ og verður það næsta árið að minnsta kosti.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ og verður það næsta árið að minnsta kosti. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands mun leggja til lagabreytingu á ársþingi sambandsins sem fram fer 10. febrúar sem snýr að kjörtímabili formanns KSÍ og heildartíma hans á valdastól sem og annarra stjórnarmanna.

Fram kemur í fundargerð stjórnar KSÍ frá 9. janúar að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hafi gert „litlar efnislegar athugasemdir“ við vinnu starfshóps Knattspyrnusambandsins í málinu en Gísli Gíslason, stjórnarmaður KSÍ og formaður Laga- og leikreglunefndar, kynnti erindið á stjórnarfundinum fyrr í mánuðinum.

Ekki kemur fram í fundargerðinni hvernig nýja reglubreytingin er en Gísli svaraði því þegar að Vísir heyrði í honum í dag.

Ekki meira en tólf ár í einu

„Tillagan er þannig að formaður sitji í þrjú ár í stað tveggja en hann hafi aðeins kjörgengi í tólf ár í einu,“ segir Gísli en eftir tólf ár verður formaðurinn að taka sér pásu. Hann getur þó boðið sig aftur fram seinna og setið önnur tólf ár.

Einnig er tillaga um breytingu á kjörtíma stjórnarmanna en þeir eru áfram kjörnir til tveggja ára en geta aðeins setið sex kjörtímabil áður en þeir verða að víkja. Glænýr formaður og stjórnarmaður geta því setið saman í tólf ár, til að einfalda hlutina.

„Þetta er þróun sem er að verða algeng í Alþjóðasamtökum fótboltans. Það er verið að takmarka setu manna í stjórnum og þannig tryggja að það verði ákveðin endurnýjun,“ segir Gísli, en af hverju að lengja valdatímabil formanns KSÍ?

„Hugsunin var bara sú að þá væri meiri samfella í því sem formaður væri að gera. Þetta væri einfaldlega skynsamlegra því þá hefði sitjandi formaður meiri tíma til að fylgja sínum málum eftir.“

Kosið að ári

Félögunum í landinu og samtökunum Íslenskum toppfótbolta verður ekki komið á óvart með þessum lagabreytingum því samþykkt var á stjórnarfundi KSÍ að senda tillögurnar strax þeirra. Starfshópurinn sem vann að þeim óskaði einnig eftir ábendingum frá aðildarfélögum KSÍ um málið.

Guðni Bergsson var kjörinn formaður KSÍ í fyrra og þarf því ekki að hafa áhyggjur af starfinu á ársþinginu á Hilton í febrúar.

Þessi breyting gildir ekki um sitjandi formann og stjórnarmenn sem voru kosnir eftir gömlu lögunum þannig kosið verður um nýjan formann á ársþinginu 2019 og mun sá hinn sami sitja í þrjú ár í senn, en þó ekki lengur en tólf ár í einum rykk, verði breytingarnar samþykktar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×