Enski boltinn

Maðurinn sem heldur Herði Björgvin á bekknum gæti verið á leið til Gylfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joe Bryan í leik með Bristol.
Joe Bryan í leik með Bristol. vísir/getty
Nýliðarnir Newcastle og Brighton í ensku úrvalsdeildinni auk Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga í Everton ætla sér allir að gera sjö milljóna punda tilboð í vinstri bakvörðinn Joe Bryan, leikmann Bristol City í B-deildinni, samkvæmt fréttum frá Bretlandi.

Bryan er 24 ára gamall og er uppalinn hjá Bristol, en eftir að vera lánaður til Bath og Plymouth á yngri árum varð hann að lykilmanni hjá liðinu 2014 og hefur verið það síðan.

Þessi fjölhæfi vinstri fótar maður getur bæði spilað sem bakvörður og kantmaður en þetta er maðurinn sem hefur haldið íslenska landslisðmanninum Herði Björgvin Magnússyni ansi mikið á bekknum hjá Bristol-liðinu.

Það er mest þegar að Bryan leysir af á kantinum sem að Hörður Björgvin fær tækifæri í bakverðinum þannig að þó það væri vont fyrir Bristol að missa einn sinn besta mann yrði þessi sala félagsins ansi fín fyrir Íslendinginn.

Joe Bryan gæti verið á leið frá einum íslenskum landsliðsmanni til annars en Gylfi Þór Sigurðsson er eins og allir vita leikmaður Everton en það er eitt af þremur félögum sem enska blaðið Mirror segir ætla að gera Bristol tilboð í enska bakvörðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×