Innlent

Sveinbjörg vill snjallsímabann í grunnskólum borgarinnar

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Vísir/valli
Óháði borgarfulltrúinn Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hyggst í byrjun febrúar leggja fram tillögu í borgarstjórn um að borgaryfirvöld auðveldi skólastjórnendum að banna notkun snjallsíma í grunnskólum borgarinnar.

Sveinbjörg segir snjallsímanotkun grunnskólabarna á skólatíma vera vaxandi vandmál en hún hafi fulla trú á að hægt sé að koma böndum á notkun símanna.

„Vandinn er að það eru engar samræmdar reglur um þetta hjá Reykjavíkurborg. Hverjum skólastjóra er því í sjálfsvald sett hvaða reglur gilda um snjallsíma í hans skóla.“

Sveinbjörg segir afleiðinguna þá að ef börnum er bannað að vera með snjallsíma í einum skóla vísi þau í ólíkar reglur í öðrum skólum og spyrji eðlilega hvers vegna eitt skuli ekki yfir alla ganga. „Skólar í Frakklandi og Svíþjóð eru byrjaðir að banna snjallsíma og við hljótum að geta gert þetta líka. En ef við ætlum að fara þessa leið þarf Reykjavík að setja sér reglur sem gilda fyrir alla skóla í borginni.“

Hún segir flest benda til þess að óhófleg notkun snjalltækja ýti undir kvíða og óöryggi hjá fjölda barna. „Við höfum dæmi um ljótt einelti þar sem snjallsíminn er notaður.“

Sveinbjörg segist undir það búin að tillaga hennar muni falla í misfrjóan jarðveg og skólabörn séu líkleg til þess að mótmæla slíku banni. „Ég held að skilningurinn á þessum vanda hafi verið að aukast og fólk er að verða meðvitaðra um félagslega þáttinn. Það verða örugglega mótbárur og þá líklegast frá þeim sem eru veikastir fyrir og orðnir alvarlega háðir tækjunum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×