Erlent

Faðir suður-afríska djassins látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Hugh Masekela hafði glímt við blöðruhálskrabbamein.
Hugh Masekela hafði glímt við blöðruhálskrabbamein. Vísir/AFP
Suður-afríski trompetleikarinn og söngvarinn Hugh Masekela er látinn, 78 ára að aldri. Ferill Masekela spannaði rúma fimm áratugi og hefur hann verið þekktur sem „faðir suður-afrískrar djasstónlistar“.

Í frétt Guardian  segir að Masekela hafi lengi glímt við blöðruhálskrabbamein.

Masekela naut mikillar virðingar, ekki bara í heimalandinu heldur einnig á alþjóðavettvangi. Lag hans, Soweto Blues var eitt af einkennislögum baráttunnar gegn aðskilnaðarstefnunni í landinu.

Masekela steig fyrstur á svið á opnunartónleikum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fór í Suður-Afríku árið 2010 á Soccer City vellinum í Jóhannesarborg.

Nathi Mthethwa, ráðherra lista- og menningarmála í Suður-Afríku, lýsti Masekela sem „einum af mestu hönnuðum afro-djassins“, þegar hann minntist tónlistarmannsins á Twitter í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×